Síðasti leikur kvennalandsliðsins fyrir átökin á heimsmeistaramótinu í handknattleik, sem hefst í Þýskalandi og Hollandi 26. nóvember, verður gegn færeyska landsliðinu laugardaginn 22. nóvember í þjóðarhöll Færeyinga, Við Tjarnir.
Færeyska handknattleikssambandið segir frá þessu og bætir við að um verði að ræða síðustu leiki beggja landsliða fyrir heimsmeistaramótið.
Ljóst er að íslenska landsliðið leikur þar með a.m.k. fjóra leiki á næsta mánuðum áður en heimsmeistaramótið hefst. Ekki veitir af því flest bendir til þess að nokkrar breytingar verði á landsliðinu frá síðustu leikjum. Nokkrar landsliðskonur eru hættar, komnar í frí frá handbolta eða eru í fæðingarorlofi.
Fyrsti leikur tímabilsins verður gegn danska landsliðinu í Arena Nord í Frederikshavn eftir þrjár vikur, laugardaginn 20. september.
Miðvikudaginn 15. október tekur íslenska landsliðið á móti færeyska landsliðinu í fyrstu umferð undankeppni EM 2026. Leikið verður á Ásvöllum. Fjórum dögum síðar mætir íslenska landsliðið til leiks á móti portúgalska landsliðinu í Mantosinhos, úthverfi Porto, í annarri umferð undankeppni EM. Loks er ljóst að áðurnefndur leikur við Færeyinga í Þórshöfn verður laugardaginn 22. nóvember.
Fyrsti leikur Íslands á HM verður við þýska landsliðið í Stuttgart 26. nóvember. Eftir það taka við leikir við Serbíu og Úrúgvæ 28. og 30. nóvember.
A-landslið kvenna – fréttasíða.