- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leikstöðum á EM kvenna 2020 fækkað

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Flest bendir til þess að aðeins verði einn leikstaður í Noregi í stað þriggja á Evrópumóti kvenna í handknattleik sem fram fer í desember. Sennilega verður sami háttur hafður á í Danmörku eftir því sem greint er frá í Aftenposten í Noregi. Handknattleikssambönd Noregs og Danmerkur halda EM í sameiningu eins og fyrir 10 árum.


Vegna smithættu af völdum kórónuveirunnar hefur þeim tilmælum verið beint til skipuleggjendi að fækka leikstöðum til þess að draga úr smithættu. Framkvæmdastjóri norska handknattleikssambandsins segir að þeim óskum verði mætt. Hinsvegar verði þrautin þyngri að gera upp á milli Þrándheims, Stavangurs og Bærum, en þar stendur til að um 60% leikja mótsins fari fram. Liggja skipuleggjendur mótsins nú undir feld og velta vöngum. Fljótlega kemur í ljós hver hreppir hnossið en það mun vera þrautin þyngri að gera upp á milli leikstaða.


Til stóð að riðlakeppni í Noregshluta mótsins færi fram í Þrándheimi, milliriðlakeppnin færi fram í Stavangri en hluti undanúrslitaleikja og úrslitaleikir í Bærum.

Í Danmörku stendur til að leikið verði í Frederikshavn á Norður-Jótlandi og í Jyske Bank Boxen í Herning á Mið-Jótlandi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvor staðurinn verður ofan á ef leikið verður á einum stað eins og mestar líkur eru á. Reyndar hefur formaður danska handknattleikssambandsins, Per Bertelsen, sagt að forsendur fyrir mótahaldinu séu brosnar þar sem örfáir ef þá nokkrir áhorfendur verða á leikjunum. Hefur hann óskað eftir fjárstuðningi frá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, til að vega upp tekjutap en talað fyrir daufum eyrum. Bertelsen hefur gefið sterklega í skyn að til greina komi að gefa mótahaldið upp á bátinn. Norðmenn hafa ekki gengið svo langt. Meiri hugur virðist í þeim um þessar mundir.


Í Noregi fær handknattleikssambandið styrk frá ríkinu upp á 30 milljónir króna, jafnvirði um 467 milljóna íslenskra króna, til að bæta upp hluta tekjuskerðingarinnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -