- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leikurinn við Frakka verður áskorun

Elvar Ásgeirsson í leiknum við Dani á fimmtudagskvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Leikurinn við Frakka verður áskorun,“ sagði Elvar Ásgeirsson, nýbakaður landsliðsmaður í handknattleik um viðureign dagsins hjá honum og félögum í ísenska landsliðinu þegar þeir mæta Ólympíumeisturum Frakka í annarri umferð milliriðlakeppninnar á Evrópumótinu klukkan 17 í dag.


Elvar leikur með Nancy í Frakklandi og þekkir vel til fransks handknattleiks. „Það verður gaman að fá að spila við franska liðið. Við förum inn í leikinn fullir sjálfstrausts. Það verður gaman að koma heim eftir mót ef okkur tekst að ná stigi gegn Frökkum.

Enn meiri barátta hjá okkur

Af okkar hálfu má búast við enn meiri baráttuanda en gegn Dönum. Við ætlum að standa vörnina betur í 60 mínútur. Um leið verður framhald á skemmtilegum sóknarleik þótt einhverjar áherslubreytingar verði vegna þess að Frakkar hafa aðeins meiri skyttur en Danir,“ sagði Elvar sem er eðlilega hvergi banginn fremur en aðrir leikmenn íslenska landsliðsins.
Elvar leikur í dag sinn annan landsleik. Hann segir það hafa verið hnútur í maganum að taka þátt í fyrsta leiknum gegn Dönum á fimmtudaginn enda um sannkallaðan stórleik að ræða.

Elvar hleypur inn á leikvöllinn í sínum fyrsta landsleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


„Það var frábær tilfinning að klæðast landsliðsbúningnum í fyrsta sinn á ferlinum og hlaupa inn á leikvöllinn með strákunum og syngja þjóðsönginn. Svo var smá spenna í manni sem ekki er óeðlilegt þegar maður kemur út í stóra leikinn en það jafnaði sig fljótt,“ sagði Elvar sem lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Dönum á fimmtudagskvöld.

Sagði mér strax að ég myndi byrja

Elvar sagði að fljótlega eftir að áföllin dundu á landsliðinu þegar sex leikmenn greindust með covid á nokkrum klukkustundum hafi Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sagt sér að vera klár. „Hann sagði mér að ég ætti að byrja. Ég skal viðurkenna að þá greip mig svolítið stress. Ég jafnaði mig fljótt því ég hef verið með á æfingum síðan í byrjun janúar og hef tekið vel eftir. Þar með var ekkert annað en að búa sig undir hlutverkið eins og kostur var á. Eftir að leikurinn hófst skoraði ég fljótlega og þá fór mesti hrollurinn úr mér,“ sagði Mosfellingurinn glaður í bragði.

Ekki í hlutverki fórnarlamba

Spurður hvort það hafi komið leikmönnum sjálfum á óvart hversu vel þeim gekk að standa uppi í hárinu á heimsmeisturum Dana svaraði Elvar. „Við vorum ákveðnir frá upphafi að vera ekki í hlutverki fórnarlambsins. Við vorum ákveðnir að fara inn í leikinn og vinna, maður kemur í manns stað. Þegar á hólminn var komið gerðum við margt vel, annað hefði mátt ganga betur. Þannig að svarið við spurningunni er, nei. Það kom okkur ekkert á óvart,” sagði Elvar Ásgeirsson í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -