- Auglýsing -

Leipzig hefur staðfest komu Blæs

- Auglýsing -


Þýska handknattleiksliðið SC DHfK Leipzig staðfesti í dag að samið hafi verið við Blæ Hinriksson til eins árs. Eins og handbolti.is sagði frá á sunnudaginn þá var samkomulag í höfn á milli félagsins og Blæs. Það var opinberlega staðfest eftir að Blær hafði farið í gegnum læknisskoðun hjá félaginu.

Blær verður þar með einn þrettán íslenskra handknattleiksmanna í þýsku 1. deildinni á næstu leiktíð. Auk þess verða þrír íslenskir þjálfarar við störf í deildinni.

Kveður eftir fimm ár

Blær gekk til liðs við Afturelding frá HK fyrir fimm árum og hefur síðan verið ein helsta kjölfesta Aftureldingarliðsins. Hann var einn þeirra leikmanna sem Gunnar Magnússon fékk til félagsins þegar hann tók við þjálfun Aftureldingar.

Vonbrigði

SC DHfK Leipzig hefur um árabil leikið í efstu deild þýska handknattleiksins. Liðið hafnaði í 13. sæti af 18 liðum á síðustu leiktíð eftir að töluverð afföll höfðu verið í leikmannahópnum vegna meiðsla auk þess sem Viggó Kristjánsson var seldur á miðju tímabili til HC Erlangen. Vonbrigðin með árangur síðasta tímabils varð þess valdandi að Rúnari Sigtryggssyni var sagt starfi þjálfara í júní og sonur hans Andri Már Rúnarsson hvarf einnig á braut. Andri Már hefur samið við HC Erlangen eins og var staðfest í morgun.

Auk þjálfaraskiptanna hafa fimm leikmenn SC DHfK Leipzig á síðustu leiktíð róið á ný mið, þar á meðal landsliðsmaðurinn Luca Witzke. Aðrir fimm hafa komið í staðinn að Blæ meðtöldum. Þess utan verður leikstjórnandinn Simon Ernst frá keppni fyrstu mánuði nýrrar leiktíðar.

Íslendingar í þýsku 1. deildinni 2025/2026:
Leipzig: Blær Hinriksson.
Magdeburg: Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Elvar Örn Jónsson.
Melsungen: Arnar Freyr Arnarsson, Reynir Þór Stefánsson.
Gummersbach: Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari, Elliði Snær Viðarsson, Teitur Örn Einarsson.
Hannover-Burgdorf: Heiðmar Felixson, aðstoðarþjálfari.
Göppingen: Ýmir Örn Gíslason.
HC Erlangen: Viggó Kristjánsson, Andri Már Rúnarsson.
Bergischer HC: Arnór Þór Gunnarsson, þjálfari
Rhein-Neckar Löwen: Haukur Þrastarson.
HSV Hamburg: Einar Þorsteinn Ólafsson.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -