„Auðvitað er þetta mikill léttir að ná að komast á HM, sérstaklega eftir að hafa misst af mótinu í Svíþjóð,“ segir Stefán Magni Hjartarson hornamaður Aftureldingar og U19 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.
Stefán Magni fékk þungt höfuðhögg í fjórðu viðureign Aftureldingar og Vals í undanúrslitum Olísdeildar að Varmá 22. apríl og var vikum saman við mjög slæma heilsu af völdum heilshristings vegna höfuðhöggsins. Það var ekki fyrr en fyrir fáeinum vikum að Stefán Magni gat farið að æfa á nýjan leik.
Í lok síðustu viku var sagt frá því að Stefán Magni verður í U19 ára landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í Kaíró í Egyptalandi 6. ágúst.
Mótið sem Stefán Magni vísar til í upphafi viðtalsins var Opna Evrópumótið sem U19 ára landsliðið tók þátt í lok júní og í byrjun júlí í Gautaborg og var æfingamót fyrir heimsmeistaramótið.
Leiðinlegt var að missa af þessum tveimur leikjum og sérstaklega leiðinlegt að sjá manninn sem braut á mér spila næsta leik án þess að fá neitt bann
Var ekki tilbúinn
„Það var skelfileg upplifun að horfa á strákana spila úti án þess að geta gert neitt til að hjálpa liðinu að ná árangri
Það hjálpaði mér hins vegar mikið að vera heima á þeim tíma, því ég var einfaldlega ekki tilbúinn til þess að spila né æfa fyrir European Open. En núna er staðan allt önnur. Ég hef verið að æfa af fullum krafti í rúmar tvær vikur og mér líður mjög vel,“ segir Stefán Magni sem hefur verið undir eftirliti sérfræðinga allt síðan hann varð fyrir árásinni í viðureigninni sem áður er getið.
Spenntur fyrir HM
„Það er auðvitað engin spurning að ég er spenntur fyrir HM. Allir sem æfa handbolta vilja fá tækifæri til að spila fyrir land sitt á stórmóti hvort sem það er með A landsliðinu eða yngri landsliðunum. Að fá að klæðast treyjunni og spila fyrir landið sitt skapar minningar sem maður mun aldrei gleyma,“ segir Stefán Magni sem hefur verið í yngri landsliðum Íslands undanfarin sumur enda einn allra efnilegasti hægri hornamaður í íslenskum handknattleik.
Erfiðir mánuðir að baki
Stefán Magni segir síðustu mánuði hafa verið afar erfiða, eins og gefur að skilja. Eins hafi verið gremjulegt að sjá þann leikmann sem braut illa á honum halda áfram og leika úrslitakeppnina til enda eins og ekkert hefði ískorist.
Egyptalandsfararnir hafa verið valdir
„Þetta var langur og erfiður tími sem ég var frá, sirka þrír mánuðir þar sem ég mátti ekki æfa og mátti varla gera neitt án þess að finna fyrir einkennum.“
Maður sem braut á mér spilaði næsta leik
„Ég missti af oddaleik í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn með meistarflokk. Einnig missti ég af undanúrslitum í 3.flokki á seinasta árinu mínu þar. Það var erfiður tími en ég umkringdi mig bara með frábæru fólki sem hjálpaði mér í gegnum þennan erfiða tíma. Leiðinlegt var að missa af þessum tveimur leikjum og sérstaklega leiðinlegt að sjá manninn sem braut á mér spila næsta leik án þess að fá neitt bann,“ segir Stefán Magni Hjartarson hægri hornamaður Aftureldingar og U19 ára landsliðsins við handbolta.is í dag.