Hinn gamalreyndi sænski handknattleiksmaður, og þjálfari á síðari árum, Ola Lindgren, verður aðstoðarþjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Amo HK sem Arnar Birkir Hálfdánsson leikur með. Lindgren var síðast aðstoðarþjálfari HF Karlskrona en hætti í vor. Auk þess er Svíinn landsliðsþjálfari Finnlands í karlaflokki.
Lindgren er hvalreki fyrir Amo HK sem hefur verið í basli tvö síðustu tímabil eftir að liðið kom upp í úrvalsdeildina á nýjan leik. Í vor slapp Amo HK við fall úr deildinni með því að leggja Vinslövs HK úr næst efstu deild í umspilsleikjum.
Í tilkynningu frá Amo HK segir að Lindgren eigi að vinna þétt með Gustaf Hallén aðalþjálfara liðsins.
Einn sá sigursælasti
Eftir að handknattleiksferlinum lauk sneri Lindgren sér að þjálfun og var landsliðsþjálfari ásamt Staffan Olson frá 2008 til 2016 auk þess að vera um árabil þjálfari Kristianstad. Liðið vann fern gullverðlaun í röð með Lindgren við stjórnvölin.
Lindgren er einn þekktasti handknattleiksmaður Svía. Hann var hluti af hinu frábæra sænska landsliði sem Bengt Johansson byggði upp á síðustu öld og var eitt það sterkasta í heiminum í hálfan annan áratug. Lindgren lék 376 landsleiki á árunum 1986 til 2003 og var í sigurliði Svía á tvennum heimsmeistaramótum, fernum Evrópumótum auk þess að hreppa í þrígang silfurverðlaun á Ólympíuleikum.
Arnar Birkir skrifaði í vor undir nýjan samning til tveggja ára við Amo HK.