- Auglýsing -
- Auglýsing -

Línur að skýrast – flestir Íslendingar á réttri leið

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Línur er óðum að skýrast í Evrópudeildinni í handknattleik karla þar sem sex félagslið með íslenska handknattleiksmenn hafa háð harða keppni alla leiktíðina en átta leikir fóru fram í kvöld. Þrjú lið með Íslendinga innanborðs eiga nú sæti víst í 16-liða úrslitum keppninnar og tvö önnur standa vel að vígi. Sænska liðið Alingsås, sem Aron Dagur Pálsson leikur með, er hinsvegar ekki lengur inni í myndinni í keppni um sæti í 16-liða úrslitum.

Í B-riðli er sænska liðið Kristianstad með þá Ólaf Andrés Guðmundsson og Teit Örn Einarsson innanborðs komið áfram. Eftir að Dinamo Búkarest tapaði í kvöld fyrir Nimes þá er rúmenska liðið úr leik þótt það eigi tvo leiki eftir. Nimes, Füchse Berlin, Sporting og Kristianstad fara áfram á næsta stig keppninnar. Leikmenn Dinamo Búkarest og Presov frá Slóvakíu sitja eftir með sárt ennið.

Eins marks tap IFK Kristianstad í Lissabon, 27:26, í kvöld fyrir Sporting hefur ekki áhrif á framhald sænska liðsins í keppninni.

SC Magdeburg, sem Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika með er efst í B-riðli með 14 stig eftir átta leiki og tvær viðureignir eftir óleiknar. CSKA Moskva, Montpellier og Nexe frá Króatíu eru einnig örugg áfram úr riðlinum þar sem Aron Dagur og félagar sitja eftir ásamt Besiktas frá Tyrklandi.

Þrjú svokölluð Íslendingalið eru í D-riðli. Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen eru ósigraðir að loknum átta leikjum og mega tapa tveimur síðustu leikjum sínum án þess að það komi niður á áframhaldandi þátttöku í Evrópudeildinni.

GOG, sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, og Kadetten Schaffhausen sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar standa vel að vígi. Sömu sögu má segja um Eurofram Pelister frá Norður-Makedóníu.  Leikmenn Trimo Trebnje verða að halda vel á spilunum í þremur síðustu leikjum sínum til þess að leggja stein í götu GOG, Kadetten og Pelister á endasprettinum.

B-riðill:
Nimes – D.Búkarest 32:29
Sporting – Kristianstad 27:26
Teitur Örn Einarsson skoraði 5 mörk fyrir Kristianstad og Ólafur Andrés Guðmundsson 1.

Staðan:
Nimes 11(8), Füchse Berlin 10(6), Kristianstad 10(9), Sporting 8(7), Dinamo Búkarest 5(8), Presov 2(8).

C-riðill:
Nexe – CSKA 32:31
Magdeburg – Alingsås 36:21
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu tvö mörk hvor fyrir Magdeburg.
Aron Dagur Pálsson skoraði þrjú mörk fyrir Alingsås og átti tvær stoðsendingar.

Staðan:
SC Magdeburg 14(8), Montpellier 10(6), CSKA Moskva 10(7), Nexe 10(9), Alingsås 4(9), Besiktas 0(9).

D-riðill:
GOG – Trimo Trebnje 32:31
Viktor Gísli Hallgrímsson var allan leikinn í marki GOG og varði 14 skot, 33%.
Tatabánya – Kadetten 30:32
Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.

Staðan:
Rhein-Neckar Löwen 15(8), GOG 10(8), Kadetten 10(8), Eurofarm Pelister 9(8), Trimo Trebnje 4(7), Tatabánya 0(9).

A-riðill:
Ademar – Wisla Plock 32:27
Aon Fivers – Metalurg Skopje 45:30

Staðan:
Wisla Plock 16(9), Ademar 11(8), Medvedi 8(6), Aon Fivers 6(9), Toulouse 4(6), Metalurg Skopje 1(7).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -