Norska stórliðið Vipers Kristiansand verður ekki tekið til gjalþrotaskipta eins og sagt var frá í gær. Í dag var komið allt annað hljóð í strokkinn hjá Peter Gitmark formanni stjórnar félagsins þegar hann tilkynnti að í morgun hafi fjárfestar komið með fullar hendur fjár og ætli að bjarga félaginu sem er skuldum vafið.
Ekki kemur fram í fregnum frá Noregi í dag hverjir það nákvæmlega eru sem standa að baki endurreisn félagsins. Þeir eru væntanlega loðnir um lófana. Væntanlega mun það liggja skýrt fyrir fljótlega. Boðað hefur verið til aðalfundar félagsins eftir viku þar sem nýtt fólk mun taka við í krafti nýrra hluthafa. Í framhaldi má reikna með að reksturinn verði eitthvað stokkaður upp.
Leikmenn, sem eiga inni laun, eiga að fá greitt upp í topp í dag eða í fyrramálið.
Eins og komið hefur fram vantaði 25 milljónir norskra króna, um 330 milljónir íslenskra króna, inn í rekstur Vipers Kristiansand nú þegar til þess að halda hjólunum gangandi. Stjórn félagsins sendi frá sér neyðarkall á síðasta þriðjudag.
Vipers Kristiansand hefur um árabil verið eitt öflugasta kvennalið Evrópu í handknattleik og haft innan sinna raða margar af bestu handknattleikskonum heims. Vipers vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð 2021, 2022 og 2023, til viðbótar við að vinna norsku deildina sjö ár í röð og bikarkeppnina jafn oft á síðustu átta árum.