Landslið Þýskalands verður andstæðingur 17 ára landsliðsins í úrslitaleik handknattleikskeppni pilta á Ólympíudögum Æskunnar í Skopje í Norður Makedóníu á morgun. Þýskaland vann öruggan sigur á Króatíu, 35:23, í undanúrslitum síðdegis.
Íslenska liðið vann Ungverja með nokkrum yfirburðum, 40:32 í undanúrslitaleik.
Þýska og íslenska liðið hafa unnið allar viðureignir sínar á hátíðinni nokkuð örugglega. Þar af leiðandi ríkir töluverð eftirvænting fyrir úrslitaleiknum sem hefst klukkan 12.30 að íslenskum tíma.
Útsendingar frá leikjunum á hátíðinni eru endurgjaldslausar á ehftv.com en einnig er streymi á https://eoctv.org/live/.
Holland bíður stúlknanna
17 ára landslið kvenna mætir hollenska landsliðinu í viðureigninni um bronsverðlaunin í handknattleikskeppni Ólympíuhátíðarinnar klukkan 10.30 á morgun. Hollenska landsliðið tapaði með 10 marka mun fyrir Sviss í undanúrslitum en leiknum lauk rétt áðan, 31:21. Sviss leikur til úrslita við Þýskaland sem vann íslenska liðið, 28:24.
Íslenska liðið hefur unnið tvo leiki en tapaði tveimur til þessa. Sömu sögu er að segja af hollenska liðinu, tveir sigrar í fjórum leikjum.
Viðureign Íslands og Hollands verður einnig aðgengileg á ehftv.com og í streymi eoctv.org/live.