Línumaðurinn Loftur Ásmundsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna. Hann kemur til Garðabæjarliðsins frá Val en hann er uppalinn hjá HK Hann hefur undanfarin tímabil leikið með ungmennaliði Vals í Grill66-deildinni. Á nýafstöðnu tímabili skoraði Loftur 13 mörk í 14 leikjum fyrir Val2.
„Loftur er ungur og efnilegur leikmaður sem gefur ekki tommu eftir. Hann mun auka breiddina okkar á línunni sem og í varnarleiknum. Það er alltaf gaman að vinna með ungum og efnilegum leikmönnum og það verður spennandi að sjá Loft fá tækifæri í Olís-deildinni í vetur,” segir Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í tilkynningu.
Þetta er annað sumarið í röð sem Stjarnan semur við línumann frá Val en í fyrra kom Jóel Bernburg frá Val.