Þýska landsliðið í handknattleik karla, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, var eitt þriggja landsliða sem innsiglaði í kvöld keppnisrétt i lokakeppni EM á næsta ári með því að skora þrjú síðustu mörkin gegn Sviss í Zürich, 32:32. Ungverjar og Tékkar eru hinar tvær þjóðirnar sem náðu áfanganum örugglega í 5. og næst síðustu umferð undankeppninnar í kvöld.
Um miðjan mars í 4. umferð höfðu Ísland, Slóvenía, Króatía og Portúgal tryggt sér farseðilinn á EM sem fram fer í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar á næsta ári.
Þá eru ótaldir gestgjafarnir þrír auk Frakka sem unnu síðasta Evrópumót. Þeirra sæti er svo sannarlega víst.
Fleiri landslið bætast við annað kvöld þegar 5. og næst síðustu umferð lýkur. Svartfellingar, Spánverjar og grannþjóðirnar Austurríki og Sviss eru komin hálfa leið í lokakeppnina.
Fleiri þjóðir eiga ennþá góða möguleika á EM sæti, þar á meðal Færeyingar sem leika í Pristina í Kósovó annað kvöld. Aðeins Slóvakar og Tyrkir eru úrkulna vona.

Þýskur endasprettur
Talsvert breytt þýskt landslið var meira og minna undir frá upphafi nær því enda leiksins við Sviss í Zürich í kvöld, 32:32. Var það í fyrsta skipti frá því að staðan var 0:0 sem jafnt var í leiknum. Annars voru leikmenn Sviss með yfirhöndina.
Liðlega tveimur mínútum blés ekki byrlega fyrir Þjóðverjum. Þeir voru þremur mörkum undir, 32:29. Eitt mark frá Renars Ucins og tvö frá Juri Knorr þá tók þýska liðinu að jafna metin í blálokin.
Dagur vann í Belgíu
Ungverjar innsigluðu EM þátttöku með stórsigri á Slóvöku, 39:24, í Hlohovec í Slóvakíu.
Mikið endurnýjað lið Slóvena vann Litáa í Vilnius, 31:28.
Króatar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, unnu Belga í Hasselt, 34:22. Króatíska liðið hafði tryggt sér EM sæti í mars. Það byrjaði leikinn af krafti og var með átta marka forskot í hálfleik, 16:8.
Belgar lifa áfram í voninni um að sleppa inn á EM sem eitt af fjórum liðum sem ná bestum árangri í þriðja sæti. Vonin er veik. Belgíska liðið á erfiðan leik fyrir höndum á sunnudaginn í Tékklandi.
Úrslit og staðan í riðlunum: