- Auglýsing -
- Auglýsing -

Löwen og Bergischer áfram á sigurbraut

Arnór Þór Gunnarsson leikmaður Bergsicher HC. Mynd/Bergischer HC
- Auglýsing -

Þrjú lið eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í þýsku 1. deildinni en síðustu leikir umferðarinnar voru leiknir í dag. Rhein-Neckar Löwen, sem Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason leika með, og Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson og samherjar í Bergischer eru tvö þessara liða auk Flensburg. Þá hefur Leipzig unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.

Alexander og Ýmir Örn skoruðu eitt mark hvor þegar Löwen lagði Tusem Essen, 33:27, á heimavelli í Mannheim í dag. Leikmenn Essen, sem eru án stiga, reyndu hvað þeir gátu til að stríða leikmönnum Löwen en allt kom fyrir ekki. Aðeins var eins marks munur í hálfleik, 16:15.

„Flott start hjá okkur“

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk, bæði úr vítaköstum, þegar Bergischer vann Nordhorn, 31:26, á útivelli. Ragnar Jóhannsson kom ekkert við sögu í leiknum eftir því sem næst verður komist.

„Flott start hjá okkur og tveir útisigrar í þremur leikjum,“ sagði Arnór Þór við handbolta.is í dag. Við höfum verið að spila þessa leik vel og afar taktískt,“ sagði Arnór Þór sem sér fram á hörkuleik við Wetzlar á heimavelli á fimmtudagskvöldið í fjórðu umferð deildarkeppninnar. Wetzlar tók meistaralið Kiel í kennslustund í gær á heimavelli og vann með níu mörkum, 31:22, í leik þar sem leikmenn Kiel áttu aldrei möguleika.

„Síðustu fimm eða sex árin hafa leikir okkar við Wetzlar verið svakalegir og alveg hrikalega skemmtilegir á að horfa,“ sagði Arnór Þór ennfremur en hann hefur verið í átta ár hjá Bergischer og er með lengstan starfsaldur hjá liðinu af samherjum sínum.

Arnór Þór fagnar sigri á Erlangen á heimavelli á síðasta miðvikudag. Mynd/Bergsicher HC

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk og var með fullkomna skotnýtingu en það dugði skammt þegar Melsungen steinlá fyrir Erlangen á útivelli, 31:21. Þetta var fyrsta tap Melsungen á leiktíðinni en Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, er þjálfari Melsungen-liðsins.

Úrslit dagsins:

Leipzig – Füchse Berlin 24:24
Erlangen – Melsungen 31:21
Flensburg – GWD Minden 29:24
Nordhorn – Bergischer HC 26:31
R-N-Löwen – Essen 33:27

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -