Forráðamenn þýska meistaraliðsins HB Ludwigsburg hafa kastað inn handklæðinu. HB Ludwigsburg sendir ekki lið til leiks í þýsku 1. deildina á komandi leiktíð en flautað verður til leiks í efstu deild þýska kvennahandboltans á laugardaginn.
Stjórnendur HB Ludwigsburg tilkynntu í morgun að eftir að þeir hafi troðið marvaðann síðustu vikur í von um að halda liðinu á floti væri orðið ljóst að öll sund væru nú lokuð.
Reynt hefur verið að afla fjár til þess að halda úti liði í einhverri mynd undir merkjum HB Ludwigsburg en hvorki hefur gengið né rekið. Skuldahali síðasta tímabils sé langur og dragi á eftir sér dilk sem hamlað hafi frekari fjármögnun fyrir komandi vetur.
Þrettán hafa róið á önnur mið
Í lok júlí ágúst óskaði rekstrarfélag HB Ludwigsburg eftir gjaldþrotaskiptum. Nokkrum dögum síðar var samningum allra leikmanna sagt upp. Nú hafa 13 leikmenn samið við önnur lið. Eftir standa fáeinir leikmenn. A.m.k. ein af þeim sem eftir stendur hefur í hyggju að leggja skóna á hilluna.
Ekki tekist
„Allar tilraunir okkar til þess að halda úti fámennara og ódýrara liði undir merkjum HB Ludwigsburg hafa ekki lánast,“ segir Holger Leichtle einn stjórnenda félagsins í morgun á handball-world.
Ellefu lið í efstu deild
Ellefu lið verða í þýsku 1. deildinni í vetur og situr eitt yfir í hverri umferð. Það kemur í hlut nýliða Frisch Auf Göppingen að eiga frí í fyrstu umferð en liðið átti að taka á móti HB Ludwigsburg á laugardaginn.
HB Ludwigsburg var með öflugasta kvennalið Þýskalands undanfarin ár og vann m.a. fjóra meistaratitla í röð og bikarkeppnina í fjögur skipti á síðustu árum.