„Við litum á leikina við FH sem okkar helst möguleika á að vinna leik eða leiki í keppninni. Þar af leiðandi eru það mikil vonbrigði að tapa þessum leik,“ sagði Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson leikmaður sænska meistaraliðsins IK Sävehof þegar handbolti.is greip hann glóðvolgan til stutts samtals í Kaplakrika í kvöld að loknu tapi sænska liðsins fyrir Íslandsmeisturum FH, 34:30, í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla.
Hrukkum til baka
„Við stóðum okkur vel í fyrri hálfleik og vorum með forskotið. Upphafskaflinn í síðari hálfleik var einnig þokkalegur. En um leið og FH-ingum tókst að anda aðeins niður um hálsmálið hjá okkur þá var eins við hrykkjum til baka. Það má segja að þeir hafi unnið okkur á hausnum, við misstum sjálfstraustið,“ sagði Tryggi ennfremur en hann er á sínu þriðja keppnistímabili með sænska meistaraliðinu.
Mætum dýrvitlausir eftir viku
„Það var eins og FH-ingum langaði meira í sigurinn en okkur þegar á leið leikinn. Þá fer sem fór hjá okkur. Við höfum viku til að koma okkur í stand og mæta dýrvitlausir í heimaleikinn gegn FH eftir viku,“ sagði Tryggvi Þórisson ákveðinn. Hann skoraði ekki í leiknum en tók mun meira þátt í vörninni og var m.a. vikið af leikvelli í tvígang.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 3. umferð, úrslit, staðan
Strákarnir voru frábærir í síðari hálfleik
Ásbjörn lék við hvern sinn fingur og leiddi FH-inga til fyrsta sigursins