Stefan Madsen þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Aalborg Håndbold hefur ákveðið að hætta þjálfun liðsins í lok leiktíðar. Uppsögnin kemur mörgum á óvart enda er hann samningsbundinn félaginu fram yfir mitt næsta ár.
Madsen hefur verið þjálfari liðsins, sem er stjörnum prýtt, frá 2018 er hann leysti Aron Kristjánsson af hólmi. Áður hafði Madsen verið aðstoðarþjálfari Aalborg frá 2015.
Jan Larsen hinn dugmikli framkvæmdastjóri Aalborg segir stjórnendur félagsins ekki ætla að taka sér langan tíma til þess að leita að og kynna til sögunnar eftirmann Madsen. Ljóst er að þjálfarastóllinn hjá Aalborg er eftirsóttur.
Madsen er með samning við Aalborg Håndbold til ársins 2025 en telur engu að síður tíma til kominn að láta gott heita og snúa sér að öðru eftir að hafa stýrt liðinu í gegnum súrt og sætt á síðustu árum.
Undir stjórn Madsen tók Aalborg Håndbold þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn vorið 2021. Aalborg vann danska meistaratitilinn með Madsen við stjórnvöin 2019, 2020 og 2021 og bikarinn 2021. Eins vel og liðið hefur verið mannað á allra síðustu árum hafa það verið vonbrigði að vinna hvorki deildina né bikarkeppnina í Danmörku frá 2021.
Fyrir rúmri viku tapaði Aalborg fyrir GOG í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar.
Um þessar mundir er Aalborg í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og stendur vel að vígi í riðlakeppni Meistaradeildar þegar tvær umferðir eru eftir og á víst sæti í 1. umferð útsláttarkeppninnar.
Arnór Atlason aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins og núverandi þjálfari TTH Holstebro var nánasti samstarfsmaður Madsen frá 2018 fram á síðasta sumar sem aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold.