- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Mættum virkilega gíraðir í leikinn“

Oddur Gretarsson á fullri ferð í leik með Balingen-Weilstetten. Mynd/Balingen-Weilstetten
- Auglýsing -

Oddur Gretarsson og samherjar í Balingen-Weilstetten unnu afar mikivæg tvö stig í baráttu liðanna í neðri hluta þýsku 1. deildarinnar í handknattleik þegar þeir lögðu Nordhorn, 35:24, á heimavelli. Þar með skilja þrjú stig liðin að í stigatöflunni. Balingen er í 16. sæti með 15 stig efir 23 leiki en Nordhorn er í sætinu fyrir neðan, því sautjánda, með 12 stig. Liðin í sautjánda, átjánda, nítjánda og tuttugasta sæti falla úr deildinni í vor.

Sá mikilvægasti til þessa

„Við litum á leikinn sem þann mikilvægasta á tímabilinu fram til þessa og mættum virkilega gíraðir í leikinn með hátt sjálfstraust frá síðasta leik,“ sagði Oddur við handbolta.is. Hann skoraði fjögur mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.


„Það er mikill léttir að klára þennan leik og á þennan hátt,“ sagði Oddur en Balingen-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og var komið með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:9.

Þurfum að nýta meðbyrinn

„Við höfum verið að tapa þessum fjögurra stiga leikjum á tímabilinu. Þess vegna er þessi sigur virkilega kærkominn. En það er nóg eftir af tímabilinu og við þurfum að nýta meðbyrinn og þrýsta okkur enn fjær fallsæti,“ sagði Oddur ennfremur.


Oddur átti að mæta félaga sínum úr Þór Akureyri, Arnór Þór Gunnarssyni og leikmönnum Bergischer HC, í næstu umferð 8. apríl. Leiknum hefur verið frestað eftir að kórónuveiran knúði dyra hjá Bergischer HC. Í staðinn mætir Balingen liði Göppingen sem hefur Gunnar Stein Jónsson innan sinna vébanda um þessar mundir.

Schmid skoraði sigurmarkið

Andy Schmid tryggði Rhein-Neckar Löwen sigur á Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, 26:25, á heimavelli Melsungen í hörkuleik. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen. Timo Kastening og Jerry Tollbring voru markahæstir hjá liðunum með sjö mörk hvor. Schmid skoraði sigurmarkið einni og hálfri mínútu fyrir leikslok. Arnar Freyr Arnarsson er að jafna sig af ökklameiðslum. Hann var í leikmannahópi Melsungen í dag eftir nokkurt hlé vegna meiðsla. Arnar kom á hinn bóginn lítið við sögu.


Tusem Essen vann GWD Minden, 29:20, í þriðja leik dagins.


Staðan:
Flensburg 34(19), Magdeburg 34(22), Rhein-Neckar Löwen 34(23), KIel 33(19), Göppingen 29(21), Bergischer HC 27(22), Füchsen Berlin 27(22), Melsungen 23(20), Leipzig 23(23), Lemgo 22(21), Wetzlar 22(22), Erlangen 22(23), Stuttgart 21(23), Hannover-Burgdorf 18(22), Minden 16(24), Balingen-Weilstetten 15(23), Nordhorn 12(23), Essen 11(23), Ludwigshafen 9(22), Coburg 8(23).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -