„Fyrst og fremst verðum við að ná fram okkar allra besta leik og um leið leika jafnan leik,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir æfingu landsliðsins í Max Schmeling Halle í Berlín og spurði hann út í viðureignina við Portúgal í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í dag.
Flautað verður til leiks klukkan 13.45. Viðureignin verður í textalýsingu og í streymi á handbolti.is.
Ólíkir fyrri andstæðingum
„Varnarlega verðum við að vera vel með á nótunum frá upphafi því portúgalska liðið leikur aðeins öðruvísi handknattleik en þau sem við mættum fyrr á mótinu. Þeir eru sterkir maður á mann, öflugir fintarar. Við notuðum því góðan tíma á æfingunni áðan til þess að búa okkur undir aðrar áherslur í vörninni. Til viðbótar verðum við áfram að stíga framfaraskref í uppstilltum sóknarleik. Áfram verður megináhersla okkar á að ná upp góðum varnarleik og treysta á hraðaupphlaup. Það er okkar leikur,“ sagði Einar Andri sem segir allar leikmenn íslenska liðsins klára í slaginn.
Þorsteinn verður með
Þorsteinn Leó Gunnarsson, sem sneri sig á ökkla í viðureigninni við Egypta á mánudaginn, hefur jafnað sig og var með af fullum krafti á æfingunni í keppnishöllinni í gær.
Fullir sjálfstrausts
Einar Andri segir spennu og tilhlökkun ríkja innan íslenska hópsins. Hann óttast ekki að spennan verði mönnum fjötur um fót. Liðið hafi unnið alla fimm leiki sína á mótinu til þessa sem hafi byggt upp aukið sjálfstraust.
„Fyrst og fremst eru menn fullir sjálfstrausts og tilbúnir að slaginn. Fyrir dyrum stendur leikur í átta liða úrslitum á HM í frábærri keppnishöll. Þótt leikmenn séu ekki gamlir þá hafa þeir flestir yfir að ráða mikill reynslu. Ég á ekki von á öðru en að menn mæti til þess að njóta dagsins,“ sagði Einar Andri Einarsson sem þjálfari U21 árs landsliðsins ásamt hinum þrautreynda fyrrverandi landsliðsmanni Róberti Gunnarssyni.