- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magdeburg missti af tveimur stigum – Gísli með á ný – Teitur Örn öflugur

Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari þýska 1. deildarliðsins Hannover-Burgdorf. Mynd/Hannover-Burgdorf
- Auglýsing -

SC Magdeburg missti af tveimur stigum í dag í kapphlaupinu við Füchse Berlin um þýska meistaratitilinn í handknattleik karla þegar liðið tapaði í heimsókn sinni til Hannover-Burgdorf, 28:27. Uladzislau Kulesh skoraði sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem situr í sjötta sæti.

Füchse Berlin, sem vann Lemgo í gær, 30:26, hefur þar með tveggja stiga forskot í efsta sæti eftir 21 umferð, 38 stig. SC Magdeburg er með 36 stig. Enn eru 13 umferðir eftir.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk, þrjú þeirra úr vítaköstum. Einnig gaf hann sjö stoðsendingar. Janus Daði Smárason átti eina stoðsendingu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék sinn fyrsta leik með Magdeburg á árinu. Hann missti af síðustu leikjum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í viðureign Íslands og Króatíu á EM í síðasta mánuði.

Teitur Örn markahæstur

Teitur Örn Einarsson var mjög góður með Flensburg í dag þegar liðið vann Rhein-Neckar Löwen í Mannheim, 35:26. Teitur Örn varð markahæstur hjá Flensburg með sex mörk auk tveggja stoðsendinga. Niclas Kirkeløkke skoraði níu mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen sem áfram er í mesta basli. Ýmir Örn Gíslason lék talsvert með í vörninni.

Flensburg er í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar með 32 stig, sex stigum á eftir Füchse Berlin.

Rhein-Neckar Löwen er í 10. sæti. Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -