- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magdeburg steig mikilvægt skref í átt að meistaratitlinum

Janus Daði Smárason stóð að vanda í ströngu með SC Magdeburg í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Evrópumeistarar SC Magdeburg stigu afar mikilvægt skref í baráttunni um þýska meistaratitilinn í handknattleik þegar þeir lögðu helstu andstæðinga sína um þessar mundir og topplið deildarinnar, Füchse Berlin, 31:28, á heimavelli.

Berlínarliðið situr áfram í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar en hefur leikið einum leik fleira og er aðeins stigi fyrir ofan Magdeburg. Evrópumeistararnir geta, haldi þeir rétt á spilunum, komist upp fyrir Füchse þegar kemur að því að viðureignin sem þeir eiga inni fer fram. Þ.e. tapi þeir ekki í millitíðinni.

Uppselt var í GETEC Arena í Magdeburg í dag og rífandi góð stemning meðal 6.600 áhorfenda eins og gefur að skilja enda styðja borgarbúa ákaflega vel við sitt lið. Magdeburg var marki yfir í hálfleik 16:15.

Íslendingarnir þrír hjá Magdeburg lögðu sín lóð á vogarskálarnar. Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk, fjögur þeirra voru úr vítaköstum. Einnig gaf hann sex stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk.

Lasse Andersson skoraði níu mörk fyrir Füchse Berlin og Mathias Gidsel var næstur með átta mörk.

Áfram vinna Teitur og félagar

Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk þegar lið hans Flensburg vann Göppingen á heimavelli, 35:30. Teitur Örn átti einnig þrjár stoðsendingar.

Flensburg er í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar með 37 stig eftir 24 leiki, fjórum stigum á eftir Füchse Berlin. Staðan í deildinni er neðst í greininni.

Sjö marka sigur Gummersbach

Arnór Snær Óskarsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu ekki mörk fyrir Gummersbach í dag þegar liðið vann sinn 12. leik í deildinni. Gummersbach vann Bergischer, 31:24. Raunir Bergischer jukust enn við þetta tap en liðið er í næst neðsta sæti eftir að Eisenach krækti í stig gegn Lemgo á föstudaginn.

Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer.

Staðan í þýsku 1. deildinni:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -