Bjarki Már Elísson og samherjar í Lemgo og tókst það sem fáir reiknuðu með að þeim tækist þegar þeir unnu magnaðan sigur á Kiel, 29:28, í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í Hamborg í dag. Bjarki Már var markahæstur leikmanna Lemgo með sex mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.
Kiel, sem hefur aðeins tapaði fimm stigum af 64 mögulegum í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni, var með sjö marka forskot í hálfleik, 18:11.
Þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var enn sjö marka munur, 21:14, og fátt sem benti til þess að Lemgo yrði eitthvað annað en lamb að leika við í höndum leikmanna Kiel. Annað kom svo sannarlega á daginn.
Leikmenn Lemgo söxuðu á forskotið en voru enn tveimur mörkum undir, 27:25, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Kraftaverkin gerast enn, svo sannarlega og Lemgo skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins og vann sætan og sannfærandi sigur.
Andreas Cederholm skoraði sigurmarkið þegar mínúta var til leiksloka og Peter Johannesson, markvörður Lemgo varði síðasta markskot Kiel tíu sekúndum áður en leiktíminn var úti.
Bobby Schagen skoraði einnig sex mörk fyrir Lemgo eins og Bjarki. Hendrik Pekeler og Niclas Ekberg skoruðu sex mörk hvor fyrir Kiel.
Melsungen, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með, mætir Hannover-Burgdorf í hinni viðureign undanúrslitanna síðar í dag.
Um er að ræða úrslitaleiki bikarkeppninnar sem átti að fara fram fyrir ári en var frestað vegna kórónuveirunnar. Bikarkeppnin fyrir leiktíðina 2020/2021 var felld niður.