„Ég man eiginlega ekkert eftir síðari hálfleik,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka í sjöunda himni þegar handbolti.is ásamt fleirum heyrði í kappanum eftir að hann fór á kostum í síðari hálfleik í oddaviðureign Aftureldingar og Hauka í undanúrslitum Olísdeildar karla á Varmá í gær.
Stórleikur Arons Rafns í síðari hálfleik, 66% hlutfallsmarkvarsla, reið baggamuninn og tryggði Haukum sigur og sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn gegn ÍBV.
Var kominn í skuld
„Ég var búinn að vera lélegur og skuldaði liðinu góða frammistöðu. Þegar maður er á þeim stað þá er bara ein leið til þess að svara fyrir og mér tókst það í kvöld,“ sagði Aron Rafn sem sýndi svo sannarlega gamlar hliðar í síðari hálfleik.
„Ég er hrikalega ánægður með að okkur tókst að vinna þennan mikilvæga leik og komast í úrslitin. Við lékum hrikalega sterka vörn og tókst aðeins að lemja kraftinn úr Aftureldingarmönnum. Loksins tókst mér að eiga möguleika gegn Þorsteini Leó [Gunnarssyni] en fram til þessa hafði ég ekki átt möguleika í hann,“ sagði Aron Rafn sem kórónaði frammstöðu sína í gærkvöld með því að skora tvö mörk.
„Ég átti möguleika á þriðja markinu. Eitt sinn gaf ég á Geir [Guðmundsson] þegar mark Aftureldingar stóð autt. En Geir skoraði, það skipti öllu máli.“
Fyrsti leikur á laugardaginn
Framundan hjá Haukum eru úrslitaleikir við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsta viðureignin verður í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á laugardaginn, heimavelli Arons Rafns tímabilið 2017/2018.
Geggjuð stemning í Eyjum
„Ég er mjög spenntur fyrir leikjunum við ÍBV. Það er alltaf geggjuð stemning í Eyjum, ekki síst í úrslitakeppninni. Ég hlakka mikið til.“
Erum tilbúnir að sýna klærnar
Spurður hvort Haukar eigi möguleika gegn ÍBV-liðinu sem hefur safnað kröftum í viku meðan leikmenn Hauka og Aftureldingar bárust nánast á banaspjótum.
„Það verður að koma í ljós hvort er betra. Annarsvegar að koma nánast beint úr undanúrslitum inn í úrslitin eða hinsvegar að hafa verið í viku eða 10 daga fríi frá leikjum. Við erum allavega tilbúnir að sýna klærnar og berjast. Svo kemur í ljós hvað gerist á laugardaginn,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka og hetja liðsins í sigurleiknum á Aftureldingu að Varmá í gærkvöld í uppgjöri um sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.