- Auglýsing -
- Auglýsing -

Man ekkert sérstaklega eftir leiknum

Björgvin Páll Gústavsson á æfingu í Brno í gær. Mynd/Kristján Orri, HSÍ
- Auglýsing -

Björgvin Páll er reynslumesti leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik sem mætir Tékkum í undankeppni EM í Brno í Tékklandi í kvöld. Hann leikur sinn 253. landsleik að þessu sinni. Björgvin Páll er einnig einn sex leikmanna íslenska landsliðsins í dag sem tóku þátt í síðustu viðureign við Tékka, einnig í Brno, fyrir sex árum.

„Ég man ekkert sérstaklega eftir þeim leik,” sagði Björgvin Páll sposkur í gær þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í keppnishöllinni í Brno. Skal svo sem engan undra enda kannski ekki mikil ástæða til þess að leggja tapleiki sérstaklega á minnið.


„Undirbúningurinn er svo yfirleitt stuttur og snarpur hjá okkur og við þekkjum því vel þessa stöðu. En sannarlega er skammur tími en vonandi verða allir með kveikt á ljósunum þegar flautað verður til leiks,” sagði Björgvin Páll og bætti við.

Mikil umræða

„Við erum í sviðsljósunum og viljum standa okkur sem best. Umræðan hefur verið mikil um landsliðið alveg síðan fyrir HM og eins undanfarna daga, eftir HM og þær breytingar sem gerðar voru. Stemningin er góð um leið og ljóst er að fólki er ekki alveg sama um okkur,” sagði Björgvin Páll sem telur menn vera vel einbeitt fyrir leikinn í dag sem snýst um efsta sæti riðilsins.

Alltaf heiður

„Fókusinn er á þessum mikilvæga leik sem fram fer hér. Ég hef leikið hér áður þótt ég muni ekkert sérstaklega eftir því enda rennur margt af þessum leikjum í gegnum tíðina saman. Það er alltaf heiður að fá tækifæri til þess að mæta í landsliðstreyjuna út á keppnisvöllinn hvar sem er í heiminum,” sagði Björgvin Páll.

Erum með meiri breidd en Tékkar

Björgvin Páll sagði aðal miðjumann tékkneska liðsins, sem leikur með Bergischer HC í Þýskalandi, vera fjarri góðu gamni að þessu sinni. Skyttur Tékka, jafnt hægra sem vinstra megin, eru öflugar. Þeim verður að mæta af fullum þunga.

„Tékkar eru kannski ekki með breiðasta keppnishópinn meðal landsliða í Evrópu. Við erum með meiri breidd og gæði en tékkneska liðið. En það er ekki á vísan róið. Það getur allt gerst,” sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður og leikreyndasti leikmaður íslenska landsliðsins um þessar mundir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -