Sautján ára landslið kvenna í handknattleik náði þeim frábæra árangri í gær að vinna bronsverðlaun á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Er þetta í fyrsta sinn sem landslið frá Íslandi vinnur til verðlauna í kvennaflokki á hátíðinni og því um stóran áfanga að ræða í handbolta kvenna hér á landi og ljóst að þarna er á ferðinni afar öflugur hópur eins og þjálfararnir, Díana Guðjónsdóttir og Hilmar Guðlaugsson hafa bent á í viðtölum við handbolta.is.
Mikil reynsla fyrir hópinn
„Þetta var frábært mót og mikil reynsla fyrir hópinn að fá svona marga erfiða leiki sem mun nýtast okkur á EM,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari við handbolta.is í gær eftir að bronsverðlaunin voru í höfn með sigri á Hollendingum, 31:26.
„Það voru margir jákvæðir hlutir hjá liðinu í þessu móti en einnig aðrir sem ekki voru nægilega góðir en við munum fara vel yfir það fyrir EM,“ sagði Díana sem lagði af stað með hóp sinn frá Skopje í Norður Makedóníu í morgun yfir til Podgorica í Svartfjalllandi þar sem Evrópumót 17 ára landsliða hefst á miðvikudaginn. EM stendur yfir í á aðra viku.
Díana sagði þátttökuna á Ólympíuhátíðina hafa verið kærkomna reynslu fyrir landsliðið, jafnt utan vallar sem innan.

Fremri röð f.v. Valgerður Elín Snorradóttir, Guðrún Ólafía Marinósdóttir, Alba Mist Gunnarsdóttir, Laufey Helga Óskarsdóttir, Eva Lind Tyrfingsdóttir, Eva Steinsen Jónsdóttir. Ljósmynd/HSÍ
Farið um með strætó
„Dagskráin öll á Ólympíuhátíðinni var strembin og lærdómsrík. Til dæmis á á leikdegi var þetta ekkert eins og að vera EM eða HM þar sem hvert lið er með sína rútu heldur ferðumst við með strætó á vegum mótsins í miklum hita til og frá keppnisstað. Svo þetta var mikið ævintýri og upplifun fyrir okkur,“ sagði Díana en leiknir voru fimm leikir á sex dögum og dvalið í Skopje í rúma viku.
Díana segir eftirvæntingu ríkja innan hópsins að takast á við næsta mót, EM í Svartfjallalandi sem verður enn ein ný reynsla fyrir liðið.
„Við sem lið erum að læra mikið hérna og núna er er framundan rútuferð yfir til Podgorica þar sem við munum byrja á að hvíla okkur aðeins þegar komið verður á leiðarenda. Fyrsti leikur á EM verður á miðvikudaginn, mjög erfiður á móti Færeyjum,“ segir Díana Guðjónsdóttir sem var eini þjálfari U17 ára landsliðsins á Ólympíuhátíðinni. Hilmar Guðlaugsson bætist í hópinn Podgorica ásamt Einari Bragasyni markvarðaþjálfara.
Stelpurnar unnu bronsið – frábær sigur á Hollandi
Leikir í riðlakeppni EM:
30. júlí: Ísland - Færeyjar, kl.10.
31. júlí: Ísland - Holland kl. 15.
2. ágúst: Ísland - Sviss, kl. 15.
- Leiktímar eru miðaðir við klukkuna á Íslandi.
- Allir leikir EM 17 ára verða sendir út á ehftv.com.
- Eftir riðlakeppnina tekur við milliriðlakeppni áður en kemur að krossspili á milli liðanna í milliriðli. EM 17 ára landsliðs lýkur sunnudaginn 10. ágúst.
- Íslenska liðið mætti landsliðum Sviss og Hollands á Ólympíuhátíðinni.
EM-hópurinn:
Markverðir:
Danijela Sara Björnsdóttir, HK.
Erla Rut Viktorsdóttir, Haukar.
Arna Sif Jónsdóttir, Val.
Aðrir leikmenn:
Agnes Lilja Styrmisdóttir, ÍBV.
Alba Mist Gunnarsdóttir, Valur.
Danijela Sara Björnsdóttir, HK.
Ebba Guðríður Ægisdóttir, Haukar.
Eva Lind Tyrfingsdóttir, Selfoss.
Eva Steinsen Jónsdóttir, Valur.
Guðrún Ólafía Marinósdóttir, FH.
Hekla Halldórsdóttir, HK.
Klara Káradóttir, ÍBV.
Laufey Helga Óskarsdóttir, Valur.
Roksana Jaros, Haukar.
Tinna Ósk Gunnarsdóttir, HK.
Valgerður Elín Snorradóttir, Víkingur.
Vigdís Arna Hjartardóttir, Stjarnan.
Þjálfarar:
Díana Guðjónsdóttir.
Hilmar Guðlaugsson.
Markmannsþjálfari:
Einar Bragason.
Liðsstjóri:
Brynja Ingimarsdóttir.
Sjúkraþjálfari:
Unnar Arnarsson.