- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markamet Róberts féll í kvöld

Emil Jakobsen leikmaður GOG og danska landsliðsins bætti markamet Róberts Gunnarssonar í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Sextán ára gamalt markamet Róbert Gunnarssonar í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik var slegið í kvöld af danska landsliðsmanninum Emil Jakobsen vinstri hornamanni GOG og samherja Viktors Gísla Hallgrímssonar landsliðsmarkvarðar. Jakobsen skoraði 10 mörk þegar GOG tapaði með eins marks mun fyrir Óðni Þór Ríkharðssyni og samherjum í Holstebro, 39:38, í öðrum leik liðanna um bronsið í dönsku úrvalsdeildinni.

Jakobsen hefur þar með skorað 242 mörk, einu fleira en Róbert Gunnarsson skoraði fyrir Århus Håndbold keppnistímabilið 2004/2005. Sá sem hafði komist næst metinu var Anders Eggert hornamaður Skjern tímabilið 2018/2019 er hann skoraði 223 mörk.

Róbert Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu á sínu síðasta stórmóti, EM 2016 í Póllandi. Mynd/EPA


Róbert skoraði 7,8 mörk að jafnaði í hverjum leik keppnistímabilið 2004/2005 en Jakobsen hefur skorað rétt rúm sjö mörk að meðaltali í leik á þessari leiktíð. Sá sem á metið yfir flest mörk að meðaltali í leik á einu keppnistímabili er Nikolaj Jacobsen núverandi landsliðsþjálfari heimsmeistaraliðs Dana. Hann skoraði að jafnaði 9,3 mörk fyrir GOG keppnistímabilið 1996/1997.

Viktor daufur en Óðinn sprækur

Viktor Gísli náði sér ekki á strik í markasúpunni í Holstebro í kvöld og varði aðeins 2 skot þann tíma sem hann stóð í markinu.


Óðinn Þór stóð sig hinsvegar prýðilega fyrir Holstebro. Hann skoraði sex mörk í átta skotum og var auk þess vísað í tvígang af leikvelli.


GOG og Holstebro mætast í oddaleik um bronsið á heimavelli GOG á miðvikudaginn í næstu viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -