Erfiðleikar þýska meistaraliðsins SC Magdeburg halda áfram. Eftir afleitan leik og tap fyrir RK Zagreb í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld tapaði liðið illa fyrir Hannover-Burgdorf á útivelli í kvöld í þýsku 1. deildinni. Leikmenn Hannover-Burgdorf skoruðu fimm síðustu mörk leikins og unnu með eins marks mun, 28:27. Öll sund lokuðust í sóknarleik Magdeburg-liðsins síðustu sex mínúturnar eftir að Ómar Ingi Magnússon skoraði 27. markið, 27:23.
Leikmenn Hannover-Burgdorf gengu á lagið og unnu sætan sigur. Þýski landsliðsmaðurinn Renars Uscins skoraði sigurmarkið 54 sekúndum fyrir leikslok. Hannover-Burgdorf er þar með við hlið MT Melsungen í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Hvort lið hefur 18 stig að loknum 11 umferðum. Magdeburg er fjórum stigum á eftir í fimmta sæti en á leik til góða.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Ómar Ingi var markahæstur hjá Magdeburg með níu mörk, af þeim voru fjögur úr vítaköstum. Hann átti eina stoðsendingu. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Manuel Zehnder skoraði sjö mörk.
Justus Fischer skoraði fimm mörk fyrir Hannover-Burgdorf. Uscins og Marius Steinhauser voru næstir með fjögur mörk hvor.
Flensburg lagði Lemgo örugglega, 36:27, og er í þriðja sæti, stigi á eftir tveimur efstu liðunum. Emil Jakobsen var markahæstur hjá Flensburg með níu mörk.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni er að finna hér.