Leikmenn Harðar og ungmennaliðs Vals héldu upp á það að mega byrja að leika handknattleik á nýjan leik eftir margra mánaða hlé með því að slá upp markaveislu í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði í dag. Alls voru skoruð 74 mörk og það voru gestirnir að sunnan sem höfðu betur, 41:33, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik.
Með leiknum á Torfnesi lauk fjórðu umferð Grill 66-deildar karla sem hófst í gærkvöld með fjórum hörkuleikjum.
Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum í liði Vals í dag. Honum héldu bókstafslega engin bönd. Benedikt skoraði 14 mörk. Ravis Gornunovs var fyrirferðamikill í liði Harðar með tíu mörk en Harðarliðið er nýliði í deildinni.
Mörk Harðar: Ravis Gornunovs 10, Guntis Pilpuks 9, Óli Björn Vilhjálmsson 8, Þráinn Ágúst Arnaldsson 2, Sudario Carnerio 1, Hreinn Róbert Jónsson 1, Daníel Wale Adeleye 1, Aleksa Stefanovic 1.
Mörk Vals U: Benedikt Gunnar Óskarsson 14, Einar Þorsteinn Ólafsson 6, Andri Finnsson 5, Breki Valdimarsson 4, Erlendur Guðmundsson 4, Róbert N. Petersen 4, Óðinn Ágústsson 3, Jón Bernburg 1.