- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmið okkar er óbreytt

Þorgils Jón Svölu Baldursson er klár í slaginnv ið Ystads í kvöld. Mynd/Halfiði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Í öllum liðum sem við höfum mætt til þessa í keppninni eru frábærir leikmenn. Nú er komið að Ystads þar sem meðal annars er Kim Andersson er hefur verið frábær í leikjum liðsins í Evrópudeildinni þótt hann sé farinn að eldast sem handboltamaður. Aðrir í liðinu eru líka mjög góðir. Miðjumaðurinn er frábær og skytturnar líka,“ sagði Þorgils Jón Svölu Baldursson sem á eftir að standa í ströngu í kvöld þegar Valur tekur á móti sænska meistaraliðinu Ystads IF í Origohöllinni í sjöttu umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla klukkan 19.45.


„Svo eru stórir og sterkir línumenn sem við sem leikum í þrista stöðunni í vörninni verðum að glíma við. Það er reynsla út af fyrir sig,“ sagði Þorgils Jón ennfremur.

Gaman að fást við nýja andstæðinga

Þorgils Jón segir afar skemmtilegt að fást við nýja andstæðinga í hverri viku eins og fylgir þátttökunni í Evrópudeildinni. „Það er ótrúlega gaman að fást við þetta og mæta margskonar mótherjum frá mismunandi löndum. Burt séð frá handboltanum þá hafa ferðirnar verið frábærar og eflt og styrkt andann í liðinu. Ég geri ráð fyrir að þátttakan styrki okkur fyrir átökin hér heima þegar kemur fram í úrslitakeppnina. Maður öðlast mikla reynslu af þátttökunni. Allt „tikkar“ inn í reynslubankann,“ sagði Þorgils Jón sem hefur verið í stóru hlutverki, jafnt í vörn sem sókn Valsliðsins í öllum leikjunum til þessa.

Stór gluggi fyrir leikmenn

„Síðan er þátttakan stór gluggi fyrir okkur alla í liðinu til að sjást á stærri vettvangi í handboltanum í Evrópu sem hjálpar örugglega einhverjum.“


Þorgils Jón segir að fyrirfram hafi hann ekki verið viss um hverju mætti búast við. Hann hafi aldrei tekið þátt í keppni á svo stóru sviði þótt hann hafi leikið með Val í Evrópukeppni allt frá árinu 2017. Annar taktur sé í þátttökunni í Evrópudeildinni.

Markmiðið okkar er 16-liða úrslit

„Ég veit ekki alveg hverju ég átti að búast við þegar við byrjuðum. Þetta er stærri keppni og lengri leikjadagskrá. Til þessa hefur upplifunin verið frábær.


Næst á dagskrá er vinna Ystads og komast í góða stöðu í riðlinum. Markmiðið er og hefur verið að komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslit. Það hefur ekkert breyst,“ sagði Þorgils Jón Svölu Baldursson hinn vaski línu- og varnarmaður Íslands- og bikarmeistara Vals í samtali við handbolta.is.

Aðgöngumiða á leik Vals og Ystads er hægt að fá á tix.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -