„Menn eru léttir í bragði en um leið er einbeitingin góð,“ segir Elliði Snær Viðarsson sem verður í eldlínunni með félögum sínum í landsliðinu í kvöld þegar leikinn verður úrslitaleikur við Ungverja um efsta sætið í F-riðli Evrópumótsins í handknattleik karla á Kristianstad Arena. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
„Staðan er góð hjá okkur, eins og við stefndum á að hún yrði á þessum tímapunkti, tveir sigurleikir að baki. Þess vegna er aukin tilhlökkun að fara í úrslitaleik við Ungverja,“ segir Elliði Snær og bætir við að allt verði lagt í sölurnar til að vinna leikinn og fara í milliriðil með tvö stig í farteskinu.
Stór, stærri, stærstur
„Andstæðingarnir verða stærri og sterkari með hverjum leiknum sem líður. Ítalarnir eru minnstir, síðan Pólverjarnir og nú Ungverjarnir, stór, stærri stærstur er ef til vill lýsingin á riðli okkar,“ bætti Elliði Snær við léttur í bragði að vanda.
Spurður hvað verði að ganga upp til þess að hægt verði að leggja Ungverja segir Elliði það vera sömu uppskrift og í síðustu tveimur leikjum mótsins: „Vera með fáa tæknilega feila og nýta færin okkar þokkalega vel. Um leið verðum við að vera þéttir í vörninni sem gefur um leið ódýr mörk eftir hraðaupphlaup,“ segir Elliði Snær.
„Það er markmið okkar að vinna riðilinn. Við setjum þá kröfu á okkur að vinna leikinn og fara áfram í milliriðil með tvö stig,“ segir Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður í handknattleik.
Ísland verður í öðrum milliriðli og leikur 23., 25., 27. og 28. janúar í Malmö Arena. Víst er að auk Ungverja verða Króatar, Svíar og Slóvenar með í riðlinum auk annað hvort Færeyinga eða Svisslendinga. Leikjaniðurröðun liggur fyrir fljótlega eftir að leikjum verður lokið í D- og F-riðlum í kvöld.





