Nikola Portner markvörður Evrópumeistara SC Magdeburg og svissneska landsliðsins verður í keppnisbann til 10. desember og í æfingabanni með Magdeburg fram til 10. október. Dómssátt náðist í gær í máli hans sem fór fyrir Alþjóða íþróttadómstólinn í Lausanne (CAS) eftir að Portner féll á lyfjaprófi snemma vors 2024.
Þverneitaði
Methamphetamine, sem er örvandi amfetamínlíkt lyf, fannst í sýni sem hann gaf í lyfjaprófi 10. mars 2024. Portner þverneitaði fyrir að hafa tekið efnið. Meðan málið var rannsakað frekar af hálfu lyfjanefndar þýska handknattleiksins var Portner í keppnisbanni í nokkrar vikur í lok tímabilsins vorið 2024. Málið velktist innan þýska handknattleikssambandsins og lyfjanefndar áður en ákveðið var að dæma Portner ekki í bann sumarið 2024. Tók hann þá upp æfingar á ný og lék með Magdeburg og svissneska landsliðinu allt síðasta tímabil. M.a. varð Portner Evrópumeistari með Magdeburg í júní.
Þar með var málinu ekki lokið vegna þess að þýska lyfjaeftirlitið, sem starfar m.a. undir hatti WADA, alþjóða lyfjaeftirlitsins, en undir það heyra allar íþróttagreinar sem eiga aðild Alþjóða Ólympíusambandinu, tók málið upp.
Áfall fyrir SC Magdeburg
Portner heldur ennþá fram sakleysi sínu en féllst engu að síður á dómssátt til að ljúka málinu um að taka úr keppnisbann til 10. desember og bann frá æfingum með félagsliði til 10. október.
Keppnisbannið er áfall fyrir SC Magdeburg sem á fyrir höndum þétta leikjadagskrá út árið með þátttöku í þýsku 1. deildinni, þýsku bikarkeppninni, Meistaradeild Evrópu í heimsmeistaramóti félagsliða í Egyptalandi. Nikola Portner er annar af aðalmarkvörðum Magdeburg ásamt Sergey Hernandez.