Eftir tvo sigurleiki í röð í upphafi Olísdeildar kvenna þá var ÍR-ingum kippt niður á jörðina í kvöld þegar Valur mætti í Skógarselið og vann stórsigur, 38:24. Um skeið í síðari hálfleik stefndi jafnvel í enn stærri sigur Valsliðsins sem var átta mörkum yfir í hálfleik, 19:11.
ÍR og Valur hafa þar með tvo vinninga hvort eftir þrjár umferðir í Olísdeild kvenna.
Valsliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og sýndi kunnuglegar hliðar lengi vel með hröðum sóknarleik, öflugum varnarleik og vaskri frammistöðu Hafdísar Renötudóttur markvarðar sem fékk að kasta mæðinni síðustu 10 til 15 mínútur leiksins.
Ekki stóð steinn yfir steini í varnarleik ÍR-inga. Þar af leiðandi var markvarslan engin. Mörg mistök voru gerði í sóknarleiknum, ekki síst voru sendingar samherja á milli á tíðum ónákvæmar.

Lilja með á nýjan leik
Lilja Ágústsdóttir lék með Val í kvöld. Var það hennar fyrsti leikur með liðinu frá úrslitaleiknum í Evrópubikarkeppninni í vor. Lilja kom öflug til leiks. Ekki veitti reyndar af því fjórir leikmenn Vals voru fjarverandi vegna meiðsla; Ásrún Inga Arnarsdóttir, Elísa Elíasdóttir, Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir. Þess utan lék Thea Imani Sturludóttir aðeins með í um 10 mínútur í fyrri hálfleik. Hún er á batavegi eftir fjarveru vegna meiðsla.
Mörk ÍR: Anna María Aðalsteinsdóttir 6, Sara Dögg Hjaltadóttir 5/3, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Vaka Líf Kristinsdóttir 3/2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, María Leifsdóttir 1, Sif Hallgrímsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 3, 10,7%.
Mörk Vals: Ásdís Þóra Ágústsdóttir 11/7, Lovísa Thompson 6, Lilja Ágústsdóttir 5, Sara Lind Fróðadóttir 4, Laufey Helga Óskarsdóttir 3, Sigrún Erla Þórarinsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 2, Guðrún Hekla Traustadóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12/2, 42,9% – Elísabet Millý Elíasardóttir 3, 30%.