Uppsögn allra samninga leikmanna HB Ludwigsburg hefur þegar dregið dilk á eftir sér. Stjórn þýsku deildarkeppninnar í kvennaflokki ákvað í dag að meistararnir taki ekki þátt í meistarakeppninni þar sem mætast meistarar og bikarmeistarar síðasta árs í upphafi leiktíðar.
HB Ludwigsburg varð bæði þýskur meistari og bikarmeistari á síðustu leiktíð og átti að mæta Blomberg-Lippe í meistarakeppninni 23. ágúst í München. Blomberg-Lippe hafnaði í öðru sæti í úrslitakeppninni í vor.
Stjórn deildarkeppninnar sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að í ljósi stöðunnar hjá HB Ludwigsburg hafi stjórn deildarkeppninnar enga annan kost en að kippa HB Ludwigsburg út úr meistarakeppninni (Super cup).
Andstæðingur Blomberg-Lippe verður Thüringer HC sem hafnaði í þriðja sæti í þýsku deildinni í vor. Auk þess vann Thüringer HC Evrópudeild kvenna á vormánuðum.
Með Blomberg-Lippe leika landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir.
Öllum leikmönnum meistaraliðsins var sagt upp störfum
Óvissa með deildina
Hinsvegar er þeirri spurningu enn ósvarað hvort liðið tekur þátt í efstu deild á næstu leiktíð. Ef HB Ludwigsburg verður ekki með í deildarkeppninni verða aðeins 11 lið í deildinni í stað 12. Ekki stendur til að færa lið úr næst efstu deild upp í efstu deild með svo skömmum fyrirvara.