Efsta lið þýsku 1. deildarinnar handknattleik karla, MT Melsungen, var sterkara á endasprettinum en leikmenn Gummersbach í kvöld og fór heim með stigin tvö sem leikið var um. Átta mínútum fyrir leikslok var staðan jöfn í Schwalbe-Arena í Gummerbach, 22:22. Það sem eftir var af leiknum sýndu leikmenn Melsungen styrk sinn og unnu með fimm marka mun, 29:24.
Elvar Örn í vörn og sókn
Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen, gaf eina stoðsendingu og var tvisvar vikið af leikvelli. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki að þessu sinni. Hornamaðurinn Timo Kastening var markahæstur með níu mörk.
Teitur Örn Einarsson var öflugur að vanda hjá Gummersbach. Hann skoraði fjögur mörk og var einu sinni vikið af leikvelli. Elliði Snær Viðarsson var skráður á leikskýrslu Gummersbach að þessu sinni í fyrsta sinn síðan í lok október. Kristjan Horzen var markahæstur með sjö mörk hjá Gummersbach. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins.
Sigur eftir að þjálfarinn var látinn fjúka
Flensburg vann Füchse Berlin, 38:37, á heimavelli í kvöld í afar spennandi leik. Kærkomin stig hjá Flensburg eftir að þjálfaranum Nicolej Krickau var sagt upp á laugardaginn í kjölfar skrykkjótts árangurs síðustu vikur.
Anders Eggert aðstoðarþjálfari og Ljubomir Vranjes stýrðu leik Flensburg í kvöld. Vranjes, sem er íþróttastjóri Flensburg, neitaði í samtali við þýska fjölmiðla í morgun að hann taki við sem aðalþjálfari eftir að Krickau axlaði sín skinn.
Staðan í þýsku 1. deildinni: