„Mér finnst bara ekki taka því að fara inn á völlinn fyrir færri en tíu,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Lemgo þegar handbolti.is hitti hann að máli í dag og spurði út í það einstaka markalán sem hefur leikið við hann um langt skeið. Bjarki Már hefur verið í miklum ham með Lemgo nær alla leiktíðina og nánast skorað 10 til 15 mörk í hverjum leik. Enda er svo komið að hann er markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar og næst markahæstur í Evrópudeildinni.
Líður eins og allir vegir séu færir
„Að öllu gamni slepptu þá er það staðreynd að mér hefur gengið fáránlega vel,“ sagði Bjarki Már léttur í bragði að vanda rétt fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Framhúsinu í dag. „Mér líður líka þannig að allir vegir séu færir um þessar mundir. Það er bara mjög góð tilfinning.
Maður nýtur þess að leika handbolta
Til viðbótar þá hefur liðinu gengið flest í hag síðustu vikur. Það skiptir mestu máli í þessu öllu saman. Við voru í vandræðum um tíma eftir áramótin en höfum nú unnið fjóra leiki í röð, mjög mikilvæga leiki eins og Melsungen í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Um þessar mundir er bara gaman og maður nýtur þess að leika handbolta,“ sagði Bjarki Már og bendir ennfremur á þá staðreynd að leikur Lemgo-liðsins hentaði sér afar vel og hann hafi fullt traust frá þjálfaranum, Florian Kehrmann.
Má fara inn úr vafasömum færum
„Ég hef verið að skora mörk úr ýmsum stöðum, eftir hraðaupphlaup, af línunni auk þess sem ég hef leyfi til þess að fara inn úr horninu úr vafasömum færum ef við erum í vandræðum í sókninni. Við viljum frekar enda sóknirnar með því að farið sé inn úr horninu heldur en að menn reyni vafasamar línusendingar sem, ef þær takast ekki, verða til þess að andstæðingurinn fær betri möguleika á að komast í hraðaupphlaup í bakið á okkur. Það er margt sem hjálpast að,“ sagði Bjarki Már sem er langt kominn með þriðja og síðasta ár sitt hjá Lemgo. Hann færir sig um set í sumar og gengur til liðs við ungverska stórliðið Veszprém.
Bjarka Má hefur gengið afar vel öll árin hjá Lemgo. Fyrsta keppnistímabilið var hann markakóngur þýsku 1. deildinnar. Á síðasta tímabilið varð Lemgo bikarmeistari og Bjarki Már varð þriðji markahæstur í deildinni þrátt fyrir að missa úr leiki vegna veikinda. Nú sem stendur er hann markahæstur.
Allt hefur lagst á eitt
„Segja má að allt hafi lagst á eitt í veru minni hjá Lemgo. Ég hef óskorað traust frá þjálfaranum. Leikur liðsins hentar mér mjög vel. Það er mjög gaman því maður er ekki alltaf í þeirri stöðu sem hornamaður,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við handbolta.is í dag.