- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Var kippt úr sambandi – Reynir Þór á réttri leið eftir gollurshússbólgu

- Auglýsing -

„Ég orðinn góður núna og hef verið að auka æfingaálagið jafnt og þétt síðustu vikur. Ég fór í segulómun fyrir um fjórum vikum. Þar kom fram að gollurshússbólgan var á bak á burt,“ segir handknattleiksmaðurinn Reynir Þór Stefánsson í viðtali við handbolta.is.

Tvennt ólíkt

Reynir Þór veiktist af gollurshússbólgu í byjun júní og var frá æfingum í þrjá mánuði. Ranglega hefur verið sagt frá því í fréttum undanfarna daga að Reynir Þór hafi veikst af hjartabólgu. Því fer víðs fjarri. Gollurshússbólga og hjartabólga er sannarlega ekki það sama.

Reynir Þór fyrir landsleik í Laugardalshöll í vor. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Framtíðin blasti við

Þegar Reynir Þór veiktist af gollurshússbólgu hafði hann nýlega orðið Íslandsmeistari með Fram, verið valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar og úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Einnig lék Reynir Þór sinn fyrsta A-landsleik í byrjun maí. Framtíðin blasti við tvítugum pilti og samningur við þýska stórliðið MT Melsungen. Veikindin settu strik í reikninginn og það var ekki fyrr en komið var fram í september sem Reynir Þór mátti hefja æfingar og fara rólega af stað.

Átti erfitt með andardrátt

„Í byrjun júní veiktist ég og átti meðal annars erfitt með andardrátt. Ég leitaði til læknis sem greindi mig með gollurshússbólgu sem ég hafði aldrei heyrt minnst á áður. Mér var eiginlega kippt úr sambandi,“ segir Reynir Þór. Við tóku þrír erfiðir mánuðir sem hann mátti ekkert æfa og ekki hefja æfingar á ný fyrr en öruggt var að gollurshússbólgan var yfirstaðin. Hætta var á að ef hún væri ekki á bak á burt að þá tæki hún tæki sig upp á ný.

Forráðamenn Melsungen vilja alls ekki að ég drífi mig til baka, frekar að ég gefi mér allan þann tíma sem þarf til að ná styrk og úthaldi á nýjan leik

Lítilsháttar aðgerð stóð fyrir dyrum

Reynir Þór veiktist af gollurshússbólgu þremur dögum áður en hann átti að fara í lítilsháttar aðgerð heima á Íslandi til að fjarlægja spangir sem settar voru í brjóstkassa hans fyrir þremur árum til lagfæringar á holubringu. Vegna gollurshússbólgunnar var aðgerðinni frestað og gerð í Þýskalandi fyrir segulómunina sem áður er getið. „Það var mjög lítil aðgerð. Eina sem ég þurfti að gæta að voru sárin. Annars var ég góður,“ segir Reynir Þór.

Styttist í endurkomu

Reynir Þór segir óljóst af hverju hann fékk gollurshússbólgu en um er að ræða veirusýkingu sem getur lagst á hvern sem er.

Önnur ástæða þess að Reynir Þór fór í segulómun í byrjun september var til að útiloka hjartabólgur sem getur verið fylgikvilli. Ekki fannst vottur af hjartabólgu og Reynir Þór hóf æfingar hjá MT Melsungen undir eftirliti til að byrja með. Jafnt og þétt hefur æfingaálagið aukist. Horfur eru góðar að innan fárra vikna verði hann mættur út á völlinn með nýjum samherjum sínum.

„Þjálfari Melsungen ræður ferðinni en ég vonast til þess að mega æfa með liðinu eftir tvær vikur. Framhaldið verður síðan komið undir þjálfaranum.“

Þrekhjólið hefur verið minn besti vinur undanfarnar vikur.

Reynir Þór Stefánsson í leik með Fram á síðustu leiktíð. Ljósmynd/J.L.Long

Hjólið er minn besti vinur

„Það má segja að ég sé á undirbúningstímanum. Síðustu vikur hef ég eytt miklum tíma á þrekhjólinu. Þrekhjólið hefur verið minn besti vinur undanfarnar vikur. Auk þess hef ég verið í lyftingum og æft með sérþjálfara utan hópsins. Ég finn vel að ég er allur að sækja í mig veðrið,“ segir Reynir Þór sem viðurkennir að mánuðirnir þrír í sumar, júní, júlí og ágúst hafi verið erfiðir þegar hann mátti ekkert æfa enda vanur að æfa mikið.

Þolinmæði er dyggð

„Það tekur sinn tíma að koma til baka eftir þriggja mánaða hlé, ekki síst þegar maður stendur frammi fyrir því að leika með einu af betri liðum heims. Þolinmæðin hefur verið dyggur förunautur minn síðustu mánuði,“ segir Reynir Þór og bættir við: „Eftir að ég fékk grænt ljós til æfinga þá hefur tíminn liðið hraðar.“

Mikil aðstoð frá félaginu

Reynir Þór skrifaði undir þriggja ára samning við MT Melsungen í vor, áður en hann veiktist. Stjórnendur félagsins hafa mætt Reyni í veikindunum af miklum skilningi.

„Þeir vilja alls ekki að ég drífi mig til baka, frekar að ég gefi mér allan þann tíma sem þarf til að ná styrk og úthaldi á nýjan leik. Svo er einnig aukin meiðslahætta ef ég byrja of snemma. Mjög gott teymi lækna, sjúkraþjálfara og styrktarþjálfara á vegum félagsins hefur stutt vel við bakið á mér frá fyrsta degi,“ segir Reynir Þór sem kann vel við sig í bænum Melsungen ekkert síður en hjá félaginu

Í þann mund að skora fyrsta markið með A-landsliðinu í vor. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Lítur vel úr

„Útlitið er að minnsta kosti gott þessa dagana. Eina sem ég get gert er að vera þolinmóður og gera mitt,“ segir Reynir Þór Stefánsson handknattleiksmaður í viðtali við handbolti.is.

Hvað er gollurshússbólga?
Pericarditis nefnist gollurshússbólga á íslensku. Eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða bólgu í gollurshúsinu, bandvefshulstri sem liggur utan um hjartað. Orsakir geta verið fjölmargar, t.d. veirusýking og kallast þá einnig hvotsótt, bakteríusýking, sveppasýking (sjaldgæft), sjálfsofnæmissjúkdómur t.d. rauðir úlfar og geislaáverki. Helstu einkenni eru brjóstverkur sem lýsir sér gjarnan eins og tak, þ.e. versnar við innöndun eða hósta, og er oft verstur þegar sjúklingurinn liggur flatur þannig að hann vill gjarnan sitja uppi og halla sér fram á við til að draga úr verknum.
Í alvarlegum tilfellum sem eru sem betur fer sjaldgæf getur safnast svo mikill vökvi í gollurshúsið að hætta stafar af.
Meðferð fer eftir orsökum, t.d. sýklalyf við gollurshússbólgu af völdum bakteríusýkingar en bólgueyðandi lyf við veirusýkingu eða sjálfsofnæmisbólgu. Þótt sjúkdómurinn geti verið alvarlegur, einkum vegna vökvasöfnunar, er hann oftast vægur og hættulaus.
Afritað og stytt af doktor.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -