Áhuginn og stemningin í kringum þýska liðið VfL Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar og landsliðsmennirnir Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson leika með, heldur áfram að aukast. Félagið hefur aldrei selt fleiri ársmiða fyrir næsta keppnistímabil og nú stöðvaði miðasöluna í gær. Ljóst er að færri fá ársmiða en vilja. Keppnishöllin Schwalbe Arena rúmar ekki allan þann fjölda fólks sem hefur áhuga á að mæta á leikina.
„Við ákváðum að setja fleiri ársmiða í sölu en nokkru sinni fyrr, 3.200, til að sem flestir ættu þess kost að sjá sem flesta leiki. Miðarnir eru þegar seldir og eins og staðan er hefðum við getað selt að minnsta kosti 250 ársmiða í viðbót. Auk þess á fyrirspurnum eflaust eftir að rigna inn næstu daga,“ segur Christoph Schindler, framkvæmdastjóri Gummersbach í samtali við þýska fjölmiðla.
Fyrra sölumet var 3.016 ársmiðar frá leiktíðinni 2024/25, þegar Gummersbach-liðið lék fyrir fullu húsi í öllum 17 heimaleikjum sínum í úrvalsdeildinni, þar af 16 í Schwalbe Arena, sem tekur 4.132 áhorfendur, og einn í Lanxess Arena í Köln með 19.000 áhorfendum.
Schindler segir að mikilvægt sé fyrir félagið að leitað verði allra leiða til þess að bæta aðstöðuna í Schwalbe Arena svo hægt verði að taka á móti fleiri áhorfendum og auka þar með tekjur félagsins. Einnig verði að tryggja betri aðstöðu fyrir fyrirtæki og aðra þá sem borga hærra gjald.
Uppselt á 30 leiki í röð
Fjölgun áhorfenda á heimaleikju Gummersbach undanfarin ár er hreint ótrúleg að sögn framkvæmdastjórans. Uppselt hefur verið á 30 síðustu heimaleiki Gummersbach í þýsku 1. deildinni.
Christoph Schindler leggur áherslu á leita verði leiða til að bæta aðstöðuna. Keppnishöllin sé sprungin, ef svo má segja: „Auðvitað myndum við fagna því að geta hleypt fleiri áhorfendum inn í höllina. Ég get lofað öllum aðdáendum á biðlista að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur í framtíðinni til að veita eins mörgum og mögulegt er aðgang að leikjum VfL Gummersbach. Samhliða því þurfum við að huga að því til lengri tíma litið hvaða aðrir valkostir eru í boði fyrir okkur þegar kemur að heimaleikjum.