Færeyski línumaðurinn Pætur Mikkjalsson hefur yfirgefið herbúðir Olísdeildarliðs KA og gengið til liðs við H71 í Færeyjum. Frá félagaskiptunum er greint á vef HSÍ en þau gengu í gegn á föstudaginn.
Mikkjalsson lék með H71 í gær og skoraði þrjú mörk þegar liðið vann VÍF frá Vestmanna, 33:24, í fyrri undanúrslitaleik liðanna í bikarkeppninni.
Mikkjalsson kom til KA fyrir keppnistímabilið í haust frá danska 1. deildarliðinu SUS Nyborg. Hann kom við sögu í 13 leikjum í Olísdeildinni og skoraði 24 mörk.
Hvað verður um Larsen?
Óvíst er hvort brottför Mikkjalsson frá KA hafi áhrif á það hvort unnusta hans, Sofie Söberg Larsen, mæti til leiks með KA/Þór þegar á keppnistímabilið líður en hún hefur verið í Danmörku við nám síðustu mánuði, eftir því sem handbolta.is var tjáð fyrir áramót. Von var á henni til Akureyrar á nýjan leik með hækkandi sól.
Larsen lék nokkra leiki með KA/Þór í september og október og gerði það gott.