Janus Daði Smárason og liðsfélagar í ungverska liðinu Pick Szeged tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld með 10 marka sigri á franska meistaraliðinu í PSG, 35:25. Leikurinn fór fram í París. Úrslitin eru enn ein vonbrigði franska stórliðsins í Meistaradeild Evrópu.
Að sama skapi er um stórsigur að ræða fyrir Pick Szeged sem tapaði heimaleiknum fyrir viku með eins marks mun, 31:30.
Pick Szeged hefur ekki komist í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar frá árinu 2019.
Líkurnar voru ekki með Pick Szeged fyrir leikinn. Liðið hafði aðeins unnið tvær af síðustu 13 viðureignum sínum við PSG. Leikmenn Szeged höfðu ekki hugann við fortíðina. Þeir léku frábæra vörn frá upphafi til enda. Einnig var gamli refurinn Roland Mikler í ham í markinu. Hann varði 15 skot, 38%.
Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk fyrir Pick Szeged og gaf eina stoðsendingu. Mario Sostaric var markahæstur með sjö mörk.
Kamil Syprzak skoraði átt mörk fyrir PSG.
Átta liða úrslit:
23. apríl: SC Magdeburg - One Veszprém.
23. apríl: Nantes - Sporting.
24. apríl: Füchse Berlin - Aalborg.
24. apríl: Pick Szeged - Barcelona.
- Viku síðar fara mætast liðin öðru sinni. Samanlagður sigurvegari tekur sæti í úrslitahelginni í Köln 14. og 15. júní.