- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Ágúst Elí, Orri Freyr, Aron Dagur, Óskar, Viktor, Elías Már, Hannes Jón

Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður Ribe-Esbjerg í Danmörku og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Stórleikur Ágústs Elís Björgvinssonar dugði Kolding því miður ekki í gærkvöld þegar liðið mætti Lemvig á útivelli og tapaði með minnsta mun, 29:28, í keppni neðstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni um að forðast fall úr henni. Ágúst Elí varði 13 skot, 41%. Þar af var eitt vítakast auk þess sem Hafnfirðingurinn skoraði einu sinni. Kolding er með tvö stig eftir tvo leiki í keppninni og verður a.m.k. að vinna einn leik til þess að lifa í von um áframhaldandi veru í deildinni.
  • Orri Freyr Þorkelsson skoraði sjö mörk og Aron Dagur Pálsson eitt þegar lið þeirra, Elverum, vann Bækkelaget, 38:21, í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Elverum vann báða leikina og er komið í undanúrslit eins og Drammen, Nærbö og Arendal sem öll unnu andstæðinga sína í tveimur leikjum afar örugglega.
  • Meðal liða sem féllu út í gærkvöld er Kolstad en forsvarsmenn þess hugsa hátt á næstu árum. Ljóst er að eftir að liðið féll úr leik í gærkvöld þá tekur það ekki þátt í Evrópukeppni félagsliða á næsta keppnistímabili. Eina vonin fyrir félagið er að sækja um sérstakt keppnisleyfi, svokallað wild card.
  • Óskar Ólafsson skoraði þrjú mörk og Viktor Petersen Norberg fimm í öruggum sigri Drammen á Halden, 32:21, á útivelli.
  • Fredrikstad Bkl. sem Elías Már Halldórsson þjálfar tapaði með 11 marka mun fyrir Evrópumeisturum Vipers Kristiansand, 34:23, í Kristjánssandi í gær í fyrstu umferð átta liða úrslita kvenna í norsku úrvalsdeildinni.
  • Ekkert varð af fyrirhugaðri rimmu gömlu félaganna Elíasar Más og Axels Stefánsson þjálfara Storhamar sem handbolti.is taldi á dögunum að stæði fyrir dyrum eftir deildarkeppninni lauk en lið þeirra höfnuðu í öðru og sjöunda sæti deildarinnar. Í Noregi eru þær reglur að efsta lið deildarinnar getur valið sér andstæðing í átta liða úrslitum. Vipers Kristiansand sem varð efst í úrvalsdeildinni taldi Fredrikstad vænlegri bráð í átta liða úrslitum en Byåsen sem hafnaði í áttunda sæti. Þess utan er styttra á milli Kristjánssands og Fredrikstad.
  • Lærisveinar Hannesar Jóns Jónssonar í austurríska meistaraliðinu Alpla Hard steinlágu í gær fyrir Handball Tirol, 32:19, í annarri viðureign liðanna í átta liða úrslitum austurrísku úrvalsdeildarinnar. Staðan er jöfn, hvort lið hefur einn vinning.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -