- Aldís Ásta Heimisdóttir tryggði Skara HF jafntefli með marki á síðustu sekúndu, 24:24, á heimavelli H65 Höörs HK í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Skara-liðið tók leikhlé þegar 31 sekúnda var eftir að leiknum, stillt var upp í sókn sem Akureyringurinn sá til að skilaði öðru stiginu úr viðureigninni.
- Skara er í 8. sæti með sex stig að loknum átta leikjum og er stigi á eftir H65 Höörs HK. Sävehof er efst sem fyrr með 15 stig að loknum átta leikjum.
- Vandræði Kristianstad HK halda áfram. Í gær tapaði liðið á heimavelli með sjö marka mun fyrir Västeråslrsta, 31:24. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði þrjú mörk fyrir Kristianstad en Berta Rut Harðardóttir ekkert.
- Kristianstad HK situr í 10. sæti af 12 liðum sænsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig í sjö leikjum. Næsti leikur Kristianstad HK verður gegn Val í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í Kristianstad á laugardaginn klukkan 13.
- Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir Dinmao Búkarest þegar liðið vann CSU Suceava, 39:29, í 16-liða úrslitum rúmensku bikarkeppninnar í gær.
- Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar, tapaði illa fyrir Larvik, 36:16, á útivelli í í níunda leik liðsins keppnistímabilinu í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í gær. Fredrikstad Bkl. er í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með fjögur stig. Larvik situr í þriðja sæti.
- Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður var ekki í leikmannahópi Wisła Płock þegar liðið vann Energa MKS Kalisz Handball, 28:15, á útivelli í 10. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í gær. Wisła Płock er efst í deildinni með 30 stig eftir 10 leiki.
- Auglýsing -