- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Alfreð, Wiencek, Johannessen, Saeveras, Petersson, Goluza

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla. Mynd/DHB
- Auglýsing -
  • Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik tilkynnti í gær um val á 19 leikmönnum til undirbúnings og þátttöku á Evrópumeistaramótinu í næsta mánuði. Talsverðar breytingar hafa orðið á liðinu frá Ólympíuleikunum sem fram fóru í sumar sem leið. 
  • Landsliðshópur Þýskalands er að þessu sinni skipaður blöndu eldri og yngri leikmanna. Patrick Wiencek, fyrrverandi lærisveinn Alfreðs hjá Kiel elstur og reyndastur, 32 ára gamall og með 150 landsleiki að baki. Yngstur er Julian Köster, 21 árs gamall leikmaður Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar.  Fimm leikmenn hópsins voru í sigurliði Þjóðverja á EM 2016 undir stjórn Dags Sigurðssonar, Andreas Wolff, Julius Kühn, Kai Häfner, Jannik Kohlbacher og Simon Ernst.
  • Norski landsliðsmaðurinn Gøran Søgard Johannessen verður frá keppni vegna meiðsla í nára næstu vikurnar eftir því sem félag hans, Flensburg, greinir frá. Nær útilokað er talið að Johannessen verði búinn að jafna sig áður en norska landsliðið tekur þátt í Evrópumótinu í næsta mánuði. Það væri þá annað stórmótið sem Johannessen getur ekki tekið þátt í. Hann meiddist einnig í sumar, rétt áður en handknattleikskeppni Ólympíuleikanna hófst. 
  • Kristian Saeveras, landsliðsmarkvörður Noregs í handknattleik, hefur framlengt samning sinn við Leipzig í Þýskalandi til ársins 2025. 
  • Svíinn Johan Petersson, sem um árabil lék með Minden, Nordhorn en þó lengst af með Kiel hefur verið ráðinn þjálfari Bayer Leverkusen í 1. deild kvenna í Þýskalandi. Petersson er ráðinn til starfans út leiktíðina. Aðeins er ár síðan Martin Schwarzwald tók við þjálfun Leverkusen af Michael Biegler. Illa hefur gengið hjá Leverkusen í vetur undir stjórn Schwarzwald og varð að ráði að leysa hann frá störfum. Hildigunnur Einarsdóttir, núverandi leikmaður Vals og íslenska landsliðsins, lék um árabil með Leverkusen, síðast keppnistímabilið 2020/2021.

  • Slavko Goluza sem var landsliðsþjálfari Króata um nokkurra árabil og landsliðsmaður þar á undan er hættur störfum sem þjálfari Tatran Presov í Slóvakíu eftir fjögur og hálft ár. Ekki var það sökum slaks árangurs sem Goluza hættir því hann hefur stýrt Presov til sigurs í 45 leikjum í röð í slóvakísku deildinni. Kappinn segist vera orðinn úrvinda af þreytu og óskaði eftir að verða leystur frá störfum. Við þjálfun liðsins hefur tekið Radoslav Antl sem er goðsögn innan félagsins eftir að hafa verið prímusmótor í liði Presov um árabil.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -