- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Anton Gylfi og Jónas á ferð og flugi, Rakul, Nilsson, Wiklund

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dómarar eru mættir til Þýskalands. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -
  • Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson hafa í mörg horn að líta um þessar mundir. Í gærkvöld dæmdu þeir viðureign Telekom Veszprém og Porto í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla. Bjarki Már Elísson leikmaður Telekom Veszprém tók þátt í leiknum og skoraði fimm mörk.
  • Eftir viku verða Anton Gylfi og Jónas einnig á ferðinni í Meistaradeildinni þegar þeir eiga að halda uppi röð og reglu í viðureign norska meistaraliðsins Kolstad og þýsku meistaranna í THW Kiel A-riðli Meistaradeildar. Leikurinn fer fram í Þrándheimi. Fleiri Íslendingar verða á ferðinni í leiknum í Þrándheimi því Sigvaldi Björn Guðjónsson er leikmaður Kolstad.
  • Rakul Wardum, annar markvörður færeyska kvennalandsliðsins, varð að draga sig út úr hópnum sem mætir Svíum í undankeppni EM í Uppsala í dag. Óvíst er hvort hún verður með færeyska landsliðinu gegn því íslenska í Þórshöfn á sunnudaginn. Rakul leikur með danska úrvalsdeildarliðinu Ringkøbing Håndbold. Hún leysti Elínu Jónu Þorsteinsdóttur, landsliðsmarkvörð, af hjá félaginu í sumar þegar Elín gekk til liðs við EH Aalborg. Rakul var áður hjá Ajax og þar áður með Skanderborg
  • Sænski línumaðurinn sterki, Andreas Nilsson, var valinn í  sænska landsliðið sem kemur saman til æfinga og leikja undir mánaðamótin. Endurkoma hans í landsliðið vekur mikla athygli vegna þess að það kastaðist í kekki með Nilsson og landsliðsþjálfaranum Glenn Solberg fyrir heimsmeistaramótið sem fram fór í Egyptalandi í upphafi árs 2021. Nilsson vildi fá aðeins lengra frí með fjölskyldunni fyrir mótið í miðju covid fári en Solberg gat sætt sig við. Síðan hefur Nilsson ekki verið valinn í landsliðið og einhvern tímann sagðist hann reikna með að hafa leikið sinn síðasta landsleik undir stjórn Solberg. 
  • Solberg og Nilsson hafa grafið stríðsöxina og hreinsað loftið.  Nilsson sagði í samtali við Aftonbladet vera opinn fyrir því að gefa kost á sér áfram í landsliðið, a.m.k. fram yfir Ólympíuleikana á næsta ári. 
  • Nilsson, sem er 33 ára gamall, hefur leikið með Veszprém í Ungverjalandi í níu ár og er með samning við félagið til ársins 2025. 
  • Pontus Wiklund, sem á dögunum var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundið, fyrir misheppnað grín á flugvellinum á Kastrup sumarið 2022, hefur verið leystur frá störfum sem þjálfari sænska handknattleiksliðsins Önnereds í Gautaborg. Félagið sagði frá þessu í gær og að annar þjálfari hafi verið ráðinn í stað Wiklund.
  • Wiklund var þjálfari U18 ára landsliðs kvenna og á leiðinni með liðið á heimsmeistaramót, þegar hann sló fram í gamni í öryggisleit á Kastrupflugvelli að hann væri með sprengju í bakpoka sínum.  Hann fékk að súpa seyðið af gamanseminni og var undir eins leystur frá störfum landsliðsþjálfara auk þess sem spaugið misheppnaða olli töfum á flugi frá hluta flugvallarins þann daginn. Í síðustu viku féll svo dómur yfir Wiklund.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -