- Auglýsing -
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu fyrir lið EHV Aue þegar það tapaði naumlega á heimavelli í hörkuleik fyrir Nordhorn, 23:22, í þýsku 2.deildinni í gærkvöld. Með sigrinum komst Nordhorn í efsta sæti deildarinnar, tveimur stigum og tveimur leikjum fyrir ofan Gummersbach. Sveinbjörn Pétursson stóð annan hálfleikinn í marki Aue og varði sex skot, 35%. EHV Aue er í þriðja neðsta sæti deildarinnar af 20 liðum.
- Óskar Ólafsson og Viktor Petersen Norberg og félagar þeirra í Drammen máttu þola eins marks tap fyrir Kolstad, 31:30, norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikið var í Þrándheimi. Viktor skoraði sex mörk en Óskar eitt. Honum var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Drammen er áfram í öðru sæti deildarinnar.
- FH hefur kallað Eirík Guðna Þórarinsson og Veigar Snæ Sigurðsson úr lánsvist. Sá fyrrnefndi var hjá Kórdrengjum en sá síðarnefndi var með Fjölni. Báðir eru þeir gjaldgengir nú þegar með FH-ingum. Eiríkur Guðni kom við sögu í sigurleiknum á Þór í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í gærkvöld, 33:22, á Akureyri.
- Daði Jónsson fyrrverandi leikmaður KA hefur fengið félagaskipti til Danmerkur samkvæmt vef HSÍ. Ekki kemur fram með hvaða liði Daði ætlar að leika en hann hefur dvalist í Danmörku í vetur og þar af leiðandi ekkert leikið með KA-mönnum.
- Sigurjón Friðbjörn Björnsson hefur fengið skipti úr HK yfir í lið Vængja Júpíters sem leikur í Grill66-deildinni. Ekki fylgir sögunni hvort hann ætlar að taka fram skóna á nýjan leik.
- Hollenska landsliðskonan Laura van der Heijden yfirgefur þýsku meistarana Borussia Dortmund í vor og gengur til liðs við Chambray Touraine í Frakklandi.
- Auglýsing -