- Arnar Birkir Hálfdánsson og liðsfélagar hans hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Amo HK hafa fengið nýjan þjálfara. Hans Karlsson var ráðinn í starfið. Hann tekur við Brian Ankersen sem sagt var upp störfum fyrr í vikunni. Karlsson var áður þjálfari IFK Karlskrona sem leikur í Allsvenskan og ber ekki að rugla saman við HK Karlskrona sem þrír Íslendingar leika með.
- Karlsson er þriðji þjálfari Amo á einu ári en Ankersen var ráðinn í byrjun desember þegar Andreas Stockenberg var gert að taka pokann sinn. Amo HK er í 11. sæti af 14 liðum sænsku úrvalsdeildarinnar með sex stig eftir níu leiki.
- Sænski línumaðurinn Adam Nyfjäll hefur yfirgefið herbúðir Hannover-Burgdorf eftir skamma veru vegna ónógra tækifæri. Nyfjäll hefur samið við GWD Minden í 2. deild um að leika með félaginu fram á sumar. Hann gengur síðan til liðs við grannliðið Lemgo næsta sumar.
- Svíinn Lukas Sandell hefur skrifað undir nýjan samning við ungverska meistaraliðið Veszprém sem gildir fram á mitt árið 2028. Sandell kom til félagsins sumarið 2023 frá Aalborg Håndbold .
- Franski landsliðsmaðurinn Elohim Prandi fór úr axlarlið í viðureign Frakka og Svía í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik á miðvikudagskvöld. Fyrstu fréttir sögðu að hann hafi meiðst á olnboga en síðar kom annað í ljós. Prandi verður eitthvað frá með PSG eftir að liðið hefur keppni á ný eftir landsleikjahléið sem stendur nú yfir. Prandi hefur farið á kostum með PSG það sem af er leiktíðinni.
- Einnig var staðfest í gær að Kylian Villeminot leikmaður Montpellier og franska landsliðsins sleit hásin í viðureign Frakka og Svía. Villeminot verður mánuðum saman frá keppni.
- Auglýsing -