- Auglýsing -
- Arnór Atlason og liðsmenn hans í TTH Holstebro komust í gær í átta liða úrslit dönsku bikarkeppninnar í handknattleik. TTH Holstebro lagði Skanderborg AGF, 32:28, á heimavelli.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fjögur mörk fyrir Skanderborg AGF og átti tvær stoðsendingar. Donni gekk til liðs við Skanderborg í sumar eftir fjögurra ára veru í Frakklandi.
- Dönsku bikarkeppninni er alltaf skipt á milli tímabila. Grisjað var úr hópi liðanna síðla vetrar og í vor. Þráðurinn var síðan tekinn í 16-liða úrslitum karla og kvenna í vikunni. Átta liða úrslit fara fram í haust. Leikið verður til undanúrslita og úrslita í febrúar á næsta ári. Nokkrum vikum síðar hefst ný keppni.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti stórleik þegar lið hennar Kristianstad HK vann þriðja og síðasta leik sinn í riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar í gær. Jóhanna Margrét skoraði sjö mörk í sjö marka sigri Kristianstad á Alingsås, 27:20, á útivelli. Karlskrona hafnaði í öðru sæti riðilsins og fylgir Kristianstad í 16-liða úrslit úr þessum riðli.
- Berta Rut Harðardóttir var ekki í leikmannahópi Kristianstad HK í gær, ekkert frekar en í fyrri tveimur leikjum liðsins í riðlakeppni bikarkeppninnar.
- Aldís Ásta Heimisdóttir og samherjar í Skara HF eru einnig komnar í 16-liða úrslit bikarkeppninnar í Svíþjóð. Skara vann AIK í gærkvöld, 39:19, og náði þar með öðru sæti í 6. riðli á eftir Kungälvs. Aldís Ásta skoraði eitt mark fyrir Skara.
Vilborg Pétursdóttir skoraði tvö mörk fyrir AIK í leiknum. AIK, sem vann sér sæti á ný í næst efstu deild, sem er úr leik. Liðið hafnaði í þriðja sæti riðli sex með tvö stig. Torslanda rak lestina án stiga.
- Auglýsing -