- Auglýsing -
- Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk í átta skotum og átti fimm stoðsendingar þegar Danmerkurmeistarar Aalborg Håndbold unnu Bjerringbro/Silkeborg, 31:30, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í gær.
- Ágúst Elí Björgvinsson varði átta skot, 31%, þegar Kolding tapaði fyrir efsta liði dönsku úrvalsdeildarinnar í gær, 32:27. Leikið var á heimavelli GOG á Fjóni. Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður GOG, kom ekkert við sögu í leiknum. Kolding er sem fyrr í 13. sæti. GOG er efst með 18 stig eftir níu leiki, er tveimur stigum á undan Aalborg.
- Sveinn Jóhannsson skoraði fjögur mörk í fjórum skotum og var einu sinni vísað af leikvelli í fimm marka sigri SönderjyskE á bikarmeisturum Mors-Thy í gær. Sveinn og félagar í SönderjyskE er komnir upp í 10. sæti af 15 liðum með átta stig.
- Andrea Jacobsen skoraði þrjú mörk í fjórum skotum og átti einnig tvær stoðsendingar þegar lið hennar Kristianstad vann stórsigur á Skövde, 29:16, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Kristianstad situr í fimmta sæti deildarinnar.
- Sara Dögg Hjaltadóttir er frá keppni vegna meiðsla og var þar af leiðandi ekki með Gjerpen er liðið vann Grane Arendal í norsku 1. deildinni í gær. Gjerpen er efst í deildinni með 13 stig eftir sjö leiki. Sara fór úr lið á þumalfingri fyrir um hálfum mánuði.
- Hvorki gengur né rekur hjá Erni Vésteinssyni Östenberg og félögum hans í Tønsberg Nøtterøy. Í gær töpuðu þeir á heimavelli fyrir Kristiansand, 31:28, á heimavelli. Örn skoraði fjögur mörk í leiknum. Tønsberg Nøtterøy rekur nú lestina með tvö stig í deildinni þegar níu leikir eru að baki.
- Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson komu ekkert við sögu þegar Vive Kielce vann Gdansk, 37:26, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Margir af sterkari leikmönnum Kielce fengu frí frá leiknum. Haukur er að jafna sig eftir að hafa snúið sig á ökkla fyrir um 10 dögum. Sigvaldi Björn sem glímir við lítilsháttar meiðsli sagði við handbolta.is fyrir helgina að hann væri kominn í stutt frí til að jafna sig.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk fyrir EHV Aue og átti tvær stoðsendingar þegar liðið tapaði fyrir Coburg í þýsku 2. deildinni í gær, 32:23. Áki Egilsnes, fyrrverandi leikmaður KA, skoraði einnig tvö mörk fyrir Aue. Sveinbjörn Pétursson, markvörður, kom svo að segja ekkert við sögu í leiknum.
- Anton Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir TV Emsdetten er liðið tapaði með tveggja marka mun í heimsókn sinni til Eisenach, 29:27, í 2. deild þýska handknattleiksins síðdegis í gær.
- Auglýsing -