- Auglýsing -
- Ásgeir Snær Vignisson átti tvö markskot sem geiguðu þegar lið hans, Helsingborg, vann Aranäs, 27:23, í þriðju umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í gær. Helsingborg er nýliði í deildinni og hefur farið vel af stað, hefur fjögur stig eftir þrjá leiki.
- Hvorki gengur né rekur hjá Daníel Frey Andréssyni og félögum í Lemvig-Thyborøn Håndbold í dönsku úrvalsdeildinni. Þeir töpuðu í gær sjötta leiknum í deildinni þegar Kolding kom í heimsókn, 34:24, fyrir Kolding sem er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir sex leiki. Lemvig-Thyborøn rekur lestina án stiga eins og Midtjylland. Daníel Freyr fékk lítt við ráðið í leiknum í gær. Hann varði eitt skot af sjö sem komu á mark hans þann tíma sem hann stóð vaktina.
- Marija Jovanovic, leikmaður ÍBV, er í hópi 35 leikmanna sem Uros Bregar landsliðsþjálfari Serbíu, hefur tilkynnt vegna þátttöku serbneska landsliðsins á Evrópumótinu sem fram fer í nóvember í Svartfjallalandi, Króatíu og Norður Makedóníu. Jovanovic var í lokahópi Serbíu á HM á Spáni í fyrra. Hvort hún verður í keppnishópnum á EM í nóvember kemur í ljós þegar nær dregur mótinu en alltént kemur hún greina.
- Franska blaðið Le Parisien sagði frá því í vefútgáfu sinni í gær að það hafi heimildir fyrir að Nikola Karabatic hygðist leggja skóna á gömlu góðu hilluna við lok leiktíðar næsta vor þegar samningurinn við PSG rennur út. Karabatic verður 39 ára gamall á næsta ári og hefur verið í hópi allra bestu handknattleiksmanna heims í rúmlega tvo áratugi.
- Espérance Sportive frá Túnis vann Zamalek frá Egyptalandi í úrslitaleik meistarakeppni Arabíulanda í handknattleik karla í gærkvöld 29:28, eftir framlengingu. Leikmaður Espérance Sportive skoraði sigurmarkið beint úr aukakasti þegar leiktíminn var út. Ærandi fögnuður braust út að leikslokum. Espérance Sportive hefur þar með unnið keppnina í sjö skipti, oftar en nokkurt annað félag og tekur þar með sæti í heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fer í Sádi Arabíu í næsta mánuði.
- Áfram lengist listinn yfir leikmenn þýska liðsins MT Melsungen sem eru frá vegna meiðsla. Í gær bættist Rogério Moraes í hópinn. Hann verður frá keppni í þrjá mánuði. Melsungen sagði frá þessu í gær og lét þess um leið getið að fyrir á listanum væru Elvar Örn Jónsson, Domagoj Pavlovic, Timo Kastening og Finn Lemke.
- Auglýsing -