- Auglýsing -

Molakaffi: Berta, Roland, Sveinn, Hafþór, Viktor, Elías, Alexandra, Volda, Örn, Sánche

Berta Rut Harðardóttir var markahæst hjá Holstebro í gærkvöld. Mynd/Holstebro Håndbold

Berta Rut Harðardóttir og félagar í Holstebro eru í efsta sæti 1. deildar kvenna í Danmörku eftir níu marka sigur í heimsókn til Gudme HK á Fjóni í gær, 34:25. Berta Rut skoraði eitt mark í leiknum. Holstebro er með sex stig í efsta sæti eftir þrjár umferðir eins og Bjerringbro. Andrea Jacobsen og samherjar í EH Aalborg eru í þriðja sæti með fjögur stig eins og handbolta.is sagði frá síðdegis á laugardaginn. 

  • Roland Eradze og Íslandsvinurinn Gintaras Savukynas fögnuðu fyrsta sigri úkraínsku meistaranna MC Motor Zaporizhzhia í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær þegar liðið lagði Empor Rostock, 27:24, í Düsseldorf þar sem Motorliðið er með bækistöðvar á tímabilinu. Þetta var fyrsti sigur liðsins í deildinni í fjórum leikjum. Roland er aðstoðarþjálfari liðsins eins og undanfarin tvö ár og Savukynas er aðalþjálfari. 
  • Sveinn Andri Sveinsson og Hafþór Már Vignisson leikmenn Empor Rostock létu lítið fyrir sér fara í leiknum við Motor. Hvorugum tókst að skora, svo dæmi sé tekið. Rostockliðið hefur byrjað illa og er án stiga þegar fjórar umferðir eru að baki. 


  • Viktor Gísli Hallgrímsson var fjarverandi þegar Nantes vann US Ivry, 33:28, á heimavelli og tyllti sér þar með á topp frönsku 1. deildarinnar að lokinni þriðju umferð. Nantes hefur sex stig eftir þrjá leiki. Stórlið PSG tapaði óvænt og stórt fyrir Toulouse, 35:27, eftir 38 sigurleiki í röð í deildinni eða allt síðan 25. apríl 2021 en þá beið PSG lægri hlut fyrir Nantes. 
  • Þetta er annar tapleikur PSG á skömmum tíma í Frakklandi því fyrir þremur vikum tapaði liðið fyrir Nantes í meistarakeppninni.
  • Elías Már Halldórsson gat hrósað sigri með leikmönnum sínum í liði Fredrikstad Bkl. í heimsókn til Byåsen Håndball, 34:29, í gær. Alexandra Líf Arnarsdóttir var í liði Fredrikstad Bkl. í leiknum en liðið er í 3. sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki. 
  • Í annað sinn á skömmum tíma töpuðu nýliðar Volda naumlega leik í norsku úrvalsdeildinni í gær. Að þessu sinni tapaðist leikur í heimsókn til Aker Topphåndball, 22:21. Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði þrjú af mörkum Voldaliðsins, Dana Björg Guðmundsdóttir eitt en Katrín Tinna Jensdóttir skoraði ekki að þessu sinni en hún lagði sig fram við varnarleikinn. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda og Hilmar Guðlaugsson er aðstoðarþjálfari. Volda hefur tvö stig eftir fjóra leiki.

  • Örn Vesteinsson Östenberg skoraði eitt mark fyrir Haslum HK á útivelli í gær þegar liðið tapaði fyrir ØIF Arendal Elite, 36:27, í norsku úrvalsdeildinni í karlaflokki. Haslum HK situr í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar með tvö stig að loknum fjórum viðureignum. 
  • Roi Sánche, sem verið hefur þjálfari þýska handknattleiksliðsins Stuttgart, var gær látinn taka pokann sinn eftir liðið tapaði fimm fyrstu leikjum sínum í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla. Michael Schweikardt tekur tímabundið við þjálfun liðsins eftir því sem fram kom í tilkynningu félagsins.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -