- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk þegar Veszprém vann grannliðið Fejér-B.Á.L. Veszprém, 48:27, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Bjarki Már og félagar sitja í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex leiki.
- Hið umtalaða lið Ferencváros, sem tapaði fyrir Val í 1. umferð Evrópudeildarinnar í vikunni, vann NEKA, 36:28, á útivelli í gær og færðist upp í sjöunda sæti ungversku 1. deildarinnar með átta stig. Liðsmenn NEKA er í áttunda sæti með sjö stig eftir sjö leiki.
- Orri Freyr Þorkelsson og félagar í norska meistaraliðinu Elverum fögnuðu góðum sigri á heimavelli í gær þegar þeir lögðu Haslum, 31:27. Orri Freyr skorað tvö mörk í leiknum. Örn Vesteinsson Östenberg skoraði tvö mörk fyrir Haslum sem er í næst neðsta sæti deildarinnar af 12 liðum með tvö stig eftir sjö leiki. Orri Freyr og félagar færðust upp í þriðja sæti. Þeir hafa átta stig eftir sjö viðureignir.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrisvar sinnum fyrir lið sitt, Bergischer HC, þegar það tapaði naumlega fyrir Füchse Berlin í Max-Schmeling-Halle í Berlín í gærkvöld, 29:27. Ekkert markanna skoraði Arnór Þór úr vítakasti. Bergischer HC er í 15. sæti af 18 liðum með fjögur stig eftir níu leiki. Füchse Berlin er efst með 17 stig, þremur stigum á undan Kiel og Rhein-Nekcar Löwen sem eiga leik til góða.
- Norska handknattleikskonan frábæra, Stine Oftedal, hefur skrifað undir nýjan samning við ungverska meistaraliðið Györ. Samningurinn gildir til ársins 2024 en er reyndar uppsegjanlegur ári fyrr ef þeim sem að honum standa býður svo við að horfa. Sænska landsliðskonan Linn Blohm hefur einnig framlengt samning sinn hjá Györ og það til ársins 2025.
- Raphael Caucheteux, markahæsti leikmaður í sögu frönsku 1. deildarinnar, hefur framlengt samning sinn við Saint-Raphaël til eins árs, til loka leiktíðar 2024. Caucheteux er 37 ára gamall og hefur leikið með Saint-Raphaël frá árinu 2007. Hann hefur skorað 2.248 mörk í deildinni á ferlinum, fleiri en nokkur annar franskur handknattleiksmaður. Caucheteux heldur þar með áfram að bæta eigið met eitthvað áfram.
- Auglýsing -