- Bjarki Sigurðsson fyrrverandi handknattleiksmaður hjá Val er um þessar mundir verkefnastjóri HSÍ í sjónvarpsmálum. Hann er í ítarlegu viðtali um endurvarp mynda frá handboltaleikjum í nýjasta þætti hlaðvarpsþáttarins Handkastið sem kom út í gærkvöld. Margir hafa verið með böggum hildar undanfarnar vikur vegna útsendingamálanna. Þáttinn má nálgast hér.
- Jóhann Karl Reynisson, sem lék með Stjörnunni í Olísdeild karla á síðasta tímabil, hefur fengið félagaskipti yfir í raðir Fram-liðsins. Jóhann Karl hefur ekkert leikið með Stjörnunni það sem af er núverandi leiktíðar.
- Karen Helga Díönudóttir hefur fengið félagaskipti til Selfoss frá Haukum. Karen Helga hafði dregið saman seglin í fyrra þegar hún dró fram skóna og lék síðari hluta tímabilsins með Selfossliðinu sem lánsmaður frá Haukum. Nú hefur hún semsagt fengið formleg félagaskipti og orðin leikmaður Selfoss.
- Einn efnilegasti handknattleiksmaður Svía, Elliot Stenmalm, leikur með Ystad í heimalandi sínu út leiktíðina. Stenmalm hefur hefur verið samningsbundinn Kielce frá 2022 og er með samning fram á mitt árið 2025. Hann hefur fá tækifæri fengið með pólska liðnu og kaus því að fara heim á lánasamningi. Stenmalm var burðarás í U 19 ára liði Svía á EM 2021 og EM 20 ára landsliða árið eftir.
- Simon Ernst og Moritz Preuss liðsmenn SC DHfK Leipzig sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar hafa framlengt samningum við félagið Ernst til 2026 en Preuss ári skemur.
- Þýski landsliðsmaðurinn Philipp Weber meiddist á hné í leik með SC Magdeburg og Khaleej Club á heimsmeistaramóti félagsliða í Sádi Arabíu í gær. Óttast er að meiðslin séu alvarleg og að hugasnlega missi Weber af þátttöku á Evrópumeistaramótinu í janúar. Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands má vart við fleiri afföllum úr þeim hópi leikmanna sem hann hefur úr að velja. Weber lék tvo leiki með þýska landsliðinu um síðustu helgi gegn Egyptum.
- Auglýsing -