- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk fyrir Veszprém þegar liðið vann stórsigur á Balatonfüredi KSE, 41:20, á útivelli í ungversku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Veszprém er með fullt hús stiga eftir 14 leiki í öðru sæti deildarinnar. Pick Szeged er efst með 30 stig að loknum 16 leikjum.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 12 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum þegar lið hans Kadetten Schaffhausen vann RTV 1879 Basel, 38:37, í Basel í gærkvöld. Óðinn Þór brást aðeins bogalistin í einu skoti. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Kriens-Luzern.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir GC Amicitia Zürich í fjögurra marka tapi á heimavelli fyrir SPONO EAGLES, 31:27, í A-deild kvenna í Sviss. Sunna Guðrún Pétursdóttir markvörður GC Amicitia Zürich fékk tækifæri til að verja tvö vítaköst í leiknum en varð sigruð í þeim báðum.
- Aron Pálmarsson kom lítið við sögu í gær þegar Aalborg Håndbold vann neðsta lið dönsku úrvalsdeildarinnar, HC Midtjylland, 28:24, á útivelli. Aalborg Håndbold er áfram efst og með tveggja stiga forskot á GOG sem vann Holstebro 33:25.
- Halldór Jóhann Sigfússon er annar þjálfara Holstebro-liðsins sem situr áfram í níunda sæti deildarinnar. Leikmenn verða að bíta í skjaldarrendur í síðustu sex umferðum deildarinnar til þess að ná í eitt af átta efstu sætunum og komst í úrslitakeppni liðanna í efri hlutanum.
- Daníel Freyr Andrésson og samherjar í Lemvig-Thyborøn unnu Nordsjælland með eins marks mun á heimavelli, 28:27, í úrvalsdeildinni í Danmörku í gær. Daníel Freyr varði 2 skot þann tíma sem hann stóð á milli stanganna í marki Lemvig, 18%. Lemvig-liðið stökk upp um tvö sæti úr þrettánda upp í ellefta með sigrinum.
- Eftir góðan sigur PAUC á Nimes í átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar fyrir viku þá náðu leikmenn Nimes fram hefndum í gærkvöld þegar liðin mættust í frönsku 1. deildinni á heimavelli PAUC. Nimes vann með 10 marka mun, 31:21. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði ekki mark fyrir PAUC í leiknum. Hann átti eitt markskot sem geigaði.
- Auglýsing -